Staðfest greining á blendingshval

Eins og greint var frá á vef Hafrannsóknastofnunar þann 24. ágúst sl. var þann dag dreginn að landi sérkennilegur hvalur í Hvalstöðinni í Hvalfirði. Var það í annað sinn á þessari vertíð sem slíkt gerist.

Bráðabirgðaniðurstaða starfsmanns Hafrannsóknastofnunar var sú að hvalurinn væri blendingur langreyðar og steypireyðar en stofnunin ákvað að hefja þegar vinnu þannig hægt væri að staðfesta með erfðafræðilegum aðferðum hvort sú greining væri rétt.
Þeirri vinnu er nú lokið og staðfesta greiningarnar að um blending langreyðar og steypireyðar var að ræða. Þetta er sjötti blendingur þessara tegunda sem veiðst hefur hér við land en sá fyrsti sem staðfestur var með erfðafræðilegum aðferðum veiddist sumarið 1983.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?