Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er að hefja 13 daga leiðangur í Arnarfjörð og Ísafjarðardjúp

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er að hefja 13 daga leiðangur í Arnarfjörð og Ísafjarðardjúp. Um borð er unnið að fjölbreyttum verkefnum og stöðvar teknar með rækjuvörpu, sjótaka, botngreip eða botnkjarnataka.
Eftirfarandi verkefni eru í gangi:

Stofnmæling rækju
Frá árinu 1988 hefur verið farið árlega í leiðangra til að meta stofnstærð rækju. Niðurstöður úr mælingunum eru notaðar til að veita stjórnvöldum ráðgjöf um veiðar á innfjarðarækju. Ýmsum öðrum upplýsingum er safnað, meðal annars um útbreiðslu, magn og lengd allra fisktegunda í báðum fjörðunum og einnig er afrán þorsks, ýsu og lýsu kannað.

Umhverfisáhrif sjókvíaeldis
Til að meta áhrif fiskeldis á lífríki botnsins er upplýsingum safnað í botngreipar en mælingar munu nú eingöngu fara fram í Arnarfirði. Með slíkri árlegri vöktun fást upplýsingar um þéttleika og samsetningu botndýra á fjarsvæðum eldissvæða og breytingar sem þar gætu orðð. Að auki eru botnkjarnar teknir og súrefni, brennisteinsmagn og sýrustig mælt úr setinu til að meta ástand þess.

Umhverfisrannsóknir
Árið 2001 hófst ítarleg kortlagning hitafars og seltu í þessum tveim fjörðum. Þá voru settar út sérstakar stöðvar þar sem árlega hefur verið safnað upplýsingum um hitastig og seltu sjávar. Á undanförnum árum hafa einnig verið gerðar mælingar á styrk súrefnis og næringarefna.

Rannsóknir á ungþorski
Haldið verður áfram með merkingar á þorski en átak hófst í þorskmerkingum árið 2019. Inn á fjörðum er einblínt á merkingar á ungþorski til að meta hvert og hvenær hann fer til hrygningar.

Leiðangursstjóri er Ingibjörg G. Jónsdóttir. Hægt er að fylgjast með ferð skipsins á vef Hafrannsóknastofnunar.

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?