Ráðlagður loðnuafli tæp 22 þúsund tonn

Leiðangurslínur og dreifing loðnu í desember 2020 Leiðangurslínur og dreifing loðnu í desember 2020

Niðurstöður loðnumælinga dagana 6. - 11. desember 2020 liggja nú fyrir. Mælingarnar voru gerðar á uppsjávarveiðiskipunum Kap VE, Jónu Eðvalds SF, Ásgrími Halldórssyni SF og grænlenska skipinu Iivid.

Mælingarnar fóru fram við ágætis skilyrði en hafís í Grænlandssundi takmarkaði yfirferð norðvestan við land. Vestan til var aðallega ungloðnu að sjá en á austari hluta yfirferðasvæðisins var nær eingöngu fullorðin loðna (mynd). Stærð hrygningarstofnsins mældist 487,4 þúsund tonn. Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150 000 tonnum að teknu tilliti til afráns. Samkvæmt því leiðir þessi mæling til veiðiráðgjafar upp á 21 800 tonn veturinn 2020/21 og kemur í stað fyrri ráðgjafar frá því í október um engan afla.

Áætlað er að skip Hafrannsóknastofnunar muni fara til frekari stofnmælinga á loðnu í janúar eins og áður hefur verið kynnt og verður veiðiráðgjöf endurskoðuð með tilliti til niðurstaðna þeirra. Fyrirkomulag þeirra mælinga og möguleg þátttaka annarra skipa liggur ekki fyrir.

Ráðgjöf um loðnu 16. desember 2020.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?