Ráðgjöf ICES um heildarafla 2018 í kolmunna, síld og makríl

Í vikunni lauk fundi ráðgjafarnefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) þar sem m.a. var fjallað um ráðgjöf um heildarafla norsk-íslenskrar vorgotssíldar, kolmunna og makríls í Norðaustur-Atlantshafi fyrir árið 2018. Íslendingar stunda umtalsverðar veiðar úr þeim stofnum.

Makríll

ICES leggur til, í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarksafraksturs til lengri tíma litið (MSY), að afli ársins 2018 verði ekki meiri en 551 þúsund tonn. Ráðgjöf fyrir árið 2017 var rúm 857 þúsund tonn og gert er ráð fyrir að aflinn í ár verði tæplega 1,2 milljónir tonna. Er því um að ræða ríflega 35% lækkun í ráðlögðum heildarafla.

Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

Norsk–íslensk síld

ICES ráðleggur, í samræmi við samþykkta aflareglu strandríkja, að afli ársins 2018 verði ekki meiri en 546 þúsund tonn. Ráðgjöf fyrir árið 2017 var 646 þúsund tonn og er því um 15% lækkun ráðlagðs heildarafla að ræða. ICES gerir ráð fyrir því að aflinn í ár verði rúmlega 805 þúsund tonn.

Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

Kolmunni

ICES leggur til, í samræmi við langtímanýtingarstefnu, að afli ársins 2018 verði ekki meiri en 1,39 milljón tonn. Ráðgjöf fyrir árið 2017 var svipuð eða 1,34 milljón tonn en gert er ráð fyrir að aflinn á árinu verði um 1,55 milljón tonn.

Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

Í dag var ráðgjöf ICES birt og má lesa ráðgjöfina á vef ICES.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?