Opið hús í Fornubúðum á sjómannadaginn 7. júní kl. 13-17

Bjarni Sæmundsson kemur úr 18 daga vorleiðangri 28. maí 2020. Ljósm. Sjó Bjarni Sæmundsson kemur úr 18 daga vorleiðangri 28. maí 2020. Ljósm. Sjó

Hafrannsóknastofnun, rannsókna‐ og ráðgjafarstofnun hafs og vatna er flutt í nýtt og glæsilegt hús að Fornubúðum 5, við höfnina í Hafnarfirði. Með þessu verður starfsemi Hafrannsóknastofnunar á höfuðborgarsvæðinu loks komin á einn stað. Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson fá lægi framan við húsið við Háabakka, nýjan hafnarbakka í Hafnarfjarðarhöfn.

Í húsinu að Fornubúðum starfa um 130 manns og að auki eru um 40 manns í áhöfnum skipanna. Þá sinna margir háskólanemar námsverkefnum sínum í húsinu. Hafrannsóknastofnun rekur einnig Sjávarútvegsskóla Þróunarsamvinnumiðstöðvar UNESCO sem er hluti af GRÓ ‐ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem er einn vettvangur þróunarstarfs utanríkisráðuneytisins.

Húsið er stærsta timburhús landsins reist af Fornubúðum ehf. Timbur var sérstaklega valið sem byggingarefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, bæði á byggingartíma og í rekstri hússins í samræmi við markmið Hafrannsóknastofnunar sem umhverfisvænnar stofnunar.

Á sjómannadaginn 7. júní milli kl. 13 og 17 býður Hafrannsóknastofnun öllum að skoða húsið. Stutt kynning verður á starfseminni og veitingar í boði.

Við biðjum gesti að sýna tillitsemi vegna sóttvarna en talið verður inn og út úr húsinu. Við erum öll almannavarnir.

Verið hjartanlega velkomin að koma og skoða Hafrannsóknastofnun okkar allra.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?