Nýútkomin skýrsla um rannsóknir á miðsjávarlögum

Mynd: Svanhildur Egilsdóttir. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Út er komin skýrsla HV 2021-22 um gagnasöfnun sem fram fór síðastliðið sumar fyrir alþjóðlegt rannsóknaverkefni um lífríki miðsjávarlaga (MEESO), sem styrkt er af Evrópusambandinu. Jafnframt var gert myndband um söfnun og úrvinnslu sýna um borð.

Tilgangurinn var að rannsaka magn, dreifingu og samsetningu miðsjávarfánu í tengslum við umhverfisþætti og vöxt og viðgang plöntusvifs. Meginsvæði rannsóknarinnar fylgdi sniði sem liggur nokkurn veginn eftir 61°50’N‐breiddarbaug, frá 38°49’V og að 16°05’V, þ.e. frá Grænlandshafi yfir Reykjaneshrygg og inn í Suðurdjúp, sem og á stöð í Grindavíkurdýpi. Eftir endilöngu sniðinu var u.þ.b. 50 m þykkt blöndunarlag sem svifgróður virtist dafna í. Samkvæmt bergmálsmælingum voru tvö meginlög miðsjávarlífvera. Hlutfallslega sterkt endurvarp á tíðninni 18 kHz stafaði einkum frá miðsjávarfiskum sem héldu sig tiltölulega grunnt á nóttunni (ofan við 100 m dýpi) en djúpt á daginn (~300‐400 m). Annað lag af sterku endurvarpi, sem ekki virtist ferðast upp á nóttunni en halda sig á 500‐700 m dýpi allan sólarhringinn, kom fram á 38 kHz tíðni. Þetta voru aðallega miðsjávarfiskar og sviflæg krabbadýr.

Lífmassi dýrasvifs í efstu 200 m sjávar var yfirleitt meiri í Grænlandshafi (~7,5‐10 g þurrvigt m‐2) en í Suðurdjúpi (<5 g þurrvigt m‐2). Þéttleiki dýrasvifsins var jafnan meiri í efstu lögunum (0‐50 m) heldur en þar fyrir neðan (50‐200 m). Marglyttur (aðallega Periphylla sp. og Atolla sp.) voru yfirleitt meira en helmingur lífmassans sem kom í stórátuvörpu. Um það bil 130 tegundir voru greindar úr sjö dýraflokkum. Þar af voru um 50 fisktegundir og 40 tegundir krabbadýra. Algengustu fisktegundirnar reyndust vera ísalaxsíld (Benthosema glaciale), fiskar af stirnaætt (Gonostomatidae) og íshafslaxsíld (Protomyctophum arcticum). Í skýrslunni eru sýnd lengdar‐þyngdarsambönd nokkurra helstu tegunda sem komu í vörpuna.

Hlekkur á skýrsluna HV 2021-22

Hlekkur á myndband


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?