Nýútkomin grein í ICES Journal of Marine Science

Mynd úr grein Mynd úr grein

Grein sem ber titilinn „Projecting climate-driven shifts in demersal fish thermal habitat in Iceland‘s waters“ var nýlega birt í tímariti alþjóða sjávarútvegsráðsins (ICES Journal of Marine Science).

Hlekkur á grein

Höfundar eru Julia Mason og Kristin Kleisner frá Bandaríska náttúruverndarsjóðnum (EDF) og NOAA Fisheries, Pamela Woods, Magnús Thorlacius og Kristinn Guðnason frá Hafrannsóknastofnun, Vincent Saba frá Princeton Háskóla og Patrick Sullivan frá Cornell Háskóla.

mynd úr grein 

Mynd úr greininni sem sýnir spá um breytingar á búsvæðum botnfiska árin 2061-2080 miðað við árin 2000-2018, samkvæmt loftslagsbreytingaspá eins og stefnan er núna (SSP 2-4.5) og ef jarðefnaeldsneyti verður ríkjandi í efnahagsþróun framtíðarinnar (SSP 5-8.5). Litirnir tákna skiptingu eftir kjörhita: hlýjum (rautt), svölum (ljósblátt) og köldum (dökkblátt) sjó.

Það hefur sýnt sig að umhverfisbreytingar hafa áhrif á hitastig sjávar sem svo hefur áhrif á þéttleika og útbreiðslu sjávarlífvera. Á sama tíma og reynt er að hægja á þessum breytingum er mikilvægt að reyna að átta sig á áhrifum þeirra á auðlindirnar okkar svo hægt sé að aðlagast með skjótum og ábyrgum hætti. Þetta er meðal annars gert með því að ákvarða hvaða áhrif orðnar breytingar hafa haft á hverja tegund, spá fyrir um komandi breytingar, t.d. í hita, og áætla út frá því hversu mikilla breytinga er að vænta fyrir hverja tegund.

Í rannsókninni var stuðst við samsetningu margra loftslagslíkana til að spá fyrir um breytingar í sjávarhita til ársins 2080. Annars vegar er notast við spálíkan sem gerir ráð fyrir áframhaldandi hóflegri minnkun á notkun jarðefnaeldsneytis og hins vegar spálíkan sem gerir ráð fyrir áframhaldandi notkun jarðefnaeldsneytis. Gögn úr marsralli Hafrannsóknastofnunar 1985-2020 ásamt haustralli 2000-2020 voru notuð til að áætla áhrifin á búsvæði 51 tegundar botnfiska. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar má búast við jákvæðum áhrifum á hlýsjávartegundir eins og t.d. löngu, blálöngu, ýsu og skötusel. Neikvæðra áhrifa er að vænta hjá tegundum sem þrífast betur í svölum eða köldum sjó, t.d. steinbít, hlýra, hrognkelsi, og slétthala.

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?