Nýr vegvísir til að draga úr plastúrgangi veiðarfæra

Nýr vegvísir til að draga úr plastúrgangi veiðarfæra

Norræna ráðherranefndin gaf í síðustu viku út skýrsluna „Hringrásarhagkerfi veiðarfæra í norrænum fiskveiðum“ (TemaNord 2025:544). Skýrslan er afsprengi Samnorræns verkefnis, styrkt af AG-Fish sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Verkefnið var stýrt af Hafrannsóknastofnun, en formaður verkefnisins og fyrsti höfundur skýrslunnar er fiskifræðingurinn Haraldur Arnar Einarsson, en meðhöfundar eru Augusta Jeremiassen, Meinhard Gaardlykke, Georg Haney og Gjermund Langedal. Þetta verkefni var úttekt á hvernig ónýtum veiðarfærum eða hluti af þeim er fargað á Grænlandi, Íslandi, Færeyjum og í Noregi, og leggur til vegvísa til að draga úr plastúrgangi og draugaveiðum með því að samþætta meginvinnureglur hringrásarhagkerfisins.

Í skýrslunni kemur fram að veiðarfæri, sem aðallega eru gerð úr endingargóðum tilbúnum fjölliðum (plastefnum) eins og nylon, pólýprópýleni og pólýetýleni, slitna oft eða týnast við notkun, sem veldur kostnaði og oft talsverðri plastmengun í hafinu. Það kom í ljós að öll fjögur norðurlöndin hafi verulega bætt söfnun á gömlum veiðarfærum. Áskoranir eru þó að nokkru leiti frábrugðnar á milli landa, en hvert land hefur leyst þær á sinn hátt, til dæmis notar Grænland gáma sem annars væru tómir á bakaleið, til að flytja gömul veiðarfæri frá afskekktum byggðum. Ísland nýtir endurvinnslusjóð sinn og veiðafæragerðir til að flokka veiðarfæri. Færeyjar setja upp staðbundnar netageymslur til að safna fyrir sendingu til endurvinnslu og Noregur er brautryðjandi í skráningu um tap veiðarfæra í sjó og hafa stundað í áratugi leiðangra endurheimt á týndum veiðarfærum á veiðislóð. Hins vegar hefur ekkert land enn kerfi sem rekur veiðarfærið frá kaupum til endanlegrar förgunar eða endurvinnslu.

Helstu áskoranirnar sem varpað er ljósi á eru sundrun veiðarfæra (reipum, línum og netabrot) sem gerist við notkun veiðarfæra, veiðafærahlutir úr blönduðum efnum sem flækja endurvinnslu og skortur á samræmdum merkingar- og rekjanleikakerfum. Í skýrslunni er varað við því að niðurbrot frá veiðarfærum við notkun er nær ómöguleg að endurheimta en þau valda skaða á vistkerfi sjávar og í fuglabyggðum eins og t.d. súlu. Kallað er eftir auknum rannsóknum á öðrum vistvænni efnum sem brotna niður í náttúrunni en einnig hreinni veiðiaðferðum.

Til að brúa þessar eyður mæla höfundarnir með tólf aðgerðum, en meðal þeirra eru:

  • Skyldumerking veiðarfæra með eigendaauðkennum.
  • Koma á fót miðlægri stafrænni skrá yfir veiðarfæri í notkun, frá kaupum til förgunar eða endurvinnslu.
  • Koma á fót skráningarkerfi um tap á veiðarfærum og auka eða stofna árlega leiðangra til að endurheimta töpuð veiðarfæri á veiðislóð.
  • Samræma samnorrænar reglugerðir og fjárfesta í staðbundnum endurvinnsluinnviðum, sérstaklega á Íslandi, í Færeyjum og Grænlandi.
  • Innleiða fjárhagslega hvata fyrir sjómenn til að skila inn plastefnum frá veiðarfærum og þróa veiðarfæri sem henta betur til endurvinnslu.

Hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?