Ný grein um Norður Íslands Irmingerstrauminn

Myndin sýnir strauma við Ísland (Norður Íslands Irminger straumur, NIIC), (North Icelandic Jet, NIJ)… Myndin sýnir strauma við Ísland (Norður Íslands Irminger straumur, NIIC), (North Icelandic Jet, NIJ) og (Noregsstraumur, NAC). Rauðir straumar eru hlýir en bláir kaldir. Myndin er gerð af dr. Stefanie Semper.

Nýlega birtist grein í tímaritinu „Journal of Geophysical Research: Oceans”, um Norður Íslands Irmingerstrauminn, sem ber heitið „Evolution and Transformation of the North Icelandic Irminger Current Along the North Iceland Shelf. Steingrímur Jónsson, sérfræðingur á Umhverfissviði Hafrannsóknastofnunar og prófessor við Háskólann á Akureyri er einn höfunda greinarinnar.

Greinin fjallar um þann hluta hlýja og selturíka Atlantssjávarins sem flæðir norður um Grænlandssund og norður fyrir land og streymir þar til austurs yfir landgrunninu. Straumurinn flytur með sér varma, salt og næringarefni inn á landgrunnið norðanlands og skiptir því miklu máli fyrir lífríkið en einnig fyrir veðurfar á svæðinu sem verður hlýrra fyrir vikið.

Margvísleg ný gögn voru notuð til að kanna feril straumsins og hvernig eiginleikar hans breytast á leiðinni. Hitastig og selta ásamt straumhraða voru mæld á sniðum með meiri upplausn en áður hefur verið gert og dekkuðu þau allan feril straumsins. Magn sjávar sem flyst með straumnum var metið og sýnt fram á að það minnkaði eftir því sem austar dregur. Sjórinn kólnar og seltan lækkar á leið straumsins austur eftir landgrunninu. Sjórinn breytist aðallega vegna blöndunar við umlykjandi sjó en í minna mæli vegna varmaflæðis milli sjávar og andrúmslofts.

Smelltu á hlekk hér neðar til að opna rit:

https://agupubs.onlinelibrary.wiley.com/doi/epdf/10.1029/2021JC017700


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?