Ný grein birtist fyrir skemmstu í vísindaritinu Deep Sea Research Part II: Topical Studies in Oceanography og ber heitið Clinging onto Arctic Benthos: Biogeography of Amathillopsis spinigera Heller, 1875 (Crustacea: Amphipoda), including its redescription
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sem lýst er í greininni eru þær að að marflóstegundin Amathillopsis spinigera virðist vera að alveg pólhverf* og getur búið bæði á miklu grynnri slóðum (á um 10 metrum) en einnig á talsvert meiri dýpt en áður hafði verið talið (á rúmu þriggja kílómetra dýpi).
Erfðarannsóknir á sýnum sem einangraðar voru um borð á ísbrjótnum Polarstern og rýnt var í, eftir raðgreiningu við Senckenberg stofnunina í Þýskalandi, benda til þess að talsverð tenging sé á milli þessara marflóa hringinn í kringum norðurskautið. Næstum enginn erfðafræðilegur aðskilnaður (í hvatberanum) er á milli einstaklinga teknir í þessum leiðangri um Framsund (e. Fram Strait, sundið á milli Svalbarða og Grænlands) og einstaklinga sem teknir voru úr Tjúktahafi (e. Chukchi Sea, hafsvæðið á milli Síberíu og Alaska) og vakti það athygli.
Ágrip greinarinnar:
Amathillopsis spinigera Heller, 1875, er dularfull krabbadýrategund sem finnst í Norður-Íshafi. Sumarið 2024 fannst hún á HAUSGARTEN sýnistökustöðvum í fyrsta skipti, eftir 25 ára reglubundna sýnatöku sem hluti af langtíma vistfræðilegu rannsóknarverkefninu í Fram sundi. Þessi rannsókn víkkar verulega þekkta útbreiðslu og dýptarbil A. Spinigera. Í heild voru 46 sýnum safnað frá HAUSGARTEN og metan sitrum við Svyatogor-hrygginn í tveimur leiðöngrum árið 2024. Endurskoðun okkar á öllum opinberlega aðgengilegum (sögulegum) gögnum um A. spinigera til þessa víkkar dýptarbil tegundarinnar úr 186–1972 m í 11–3182 m. Nýlegar athuganir með fjarstýrðum kafbátum (ROV) hafa staðfest að einstaklingar halda sér föstum á lífrænum beðum, t.d. orma-rörum, líklega í þeim tilgangi að hefja sig hærra upp í vatnssúlunni til að auðvelda fæðuöflun. Kvenkyns einstaklingar á ýmsum lífsstigum, þar á meðal eggberandi einstaklingar, sáust ásamt ungviði og karldýrum af mismunandi stærðum, sem gerir kleift að endurlýsa tegundina byggt á samþættri flokkunarfræðilegri nálgun sem
felur í sér bæði sameinda- og formfræðileg gögn. Rannsóknin varpar einnig ljósi á líflandfræðilega útbreiðslu, með áberandi tilhneigingu fyrir austurhluta landgrunnshlíð Norður-Íshafsins. Þó að skortur á sýnum frá vissum svæðum í kringum Grænland og Kanada, ásamt fáum sýnum frá mið-Norður-Íshafinu, gæti bent til hugsanlegrar skekkju í sýnatöku, virðast pólhverf tengsl sennileg. Þessi ályktun er studd af því hve lítill erfðafræðilegur munur fannst í strikamerkjagögnum frá einstaklingum teknir víðsvegar um Norður-Íshafið.
Hér er tengill á greinina.
*pólhverfur þýðir að fyrirbæri sem er pólhverft liggur umhverfis norður- eða suðurheimskautið (hér: norðurheimskautið).