Merkingar hrognkelsa

Mynd 1. Staðsetning merktra hrognkelsa í makrílleiðangri árið 2019. Appelsínugulir punktar sýna stað… Mynd 1. Staðsetning merktra hrognkelsa í makrílleiðangri árið 2019. Appelsínugulir punktar sýna staðsetningu merkingar og endurheimtu þeirra fjögurra fiska sem merktir voru 2018 en endurheimtust árið 2019.

Hafrannsóknastofnun og BioPol ehf á Skagaströnd hafa um langt árabil átt í samstarfi varðandi merkingar á hrognkelsum. Árið 2018 og 2019 voru 760 ungfiskar merktir í alþjóðlegum makrílleiðangri norður og suður af Íslandi og við austurströnd Grænlands (sjá mynd 1 og 2).  Ekki er vitað til þess að hrognkelsaungviði hafi áður verið merkt með þessum hætti  en  endurheimtur geta gefið mjög mikilvægar upplýsingar um vöxt hrognkelsa og hvert þau ganga til hrygningar þegar kynþroska er náð.

 

Mynd 2. Afli hrognkelsa í alþjóðlega markílleiðangrinum 2019 (frá ICES, WGWIDE 2019).

Mynd 2. Afli hrognkelsa í alþjóðlega markílleiðangrinum 2019 (frá ICES, WGWIDE 2019).

 

                          Mynd 3. Merkt grásleppa

Mynd 3. Merkt grásleppa

Það er mjög mikilvægt að Hafrannsóknastofnunin fái til sín alla merkta fiska sem endurheimtast. Þess vegna er Hafrannsóknastofnun með þau tilmæli til sjómanna sem veiða merkt hrognkelsi að vinsamlegast hringja í númerið sem er á merkinu (896-7977) og tilkynna staðsetningu. Ekki skal fjarlægja merkið en í staðinn skal koma fiskinum sem fyrst í frysti og í kjölfarið verður reynt að nálgast hann. Verðlaun verða einungis greidd ef fiskurinn skilar sér í heilu lagi og merkið er enn  í honum.

Greiddar verða 5000 kr fyrir hvern  fisk sem berst í heilu lagi til BioPol Sjávarlíftækniseturs, Einbúastíg 2, 545 Skagaströnd. Einnig fær sendandi upplýsingar um hvar og hvenær fiskurinn var merktur.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?