Merkingar á þorski hafnar á ný

Merkingar á þorski hafnar á ný

Nú í marsmánuði hóf Hafrannsóknastofnun merkingar á þorski á ný eftir nokkurt hlé. Merktir voru 1800 þorskar um borð í r/s Árna Friðrikssyni og r/s Bjarna Sæmundssyni þegar skipin voru í stofnmælingu botnfiska. Að þessu sinni var þorskur því aðeins merktur fyrir vestan og norðan land. Í haust er áætlað að halda merkingunum áfram en þá verður ungþorskur í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi merktur þegar r/s Bjarni Sæmundsson mun vera í rækju- og umhverfisrannsóknum fyrir vestan.

Þorskur sem merktur hefur verið við Ísland hefur sjaldan endurheimst fyrir utan íslenska lögsögu. Þorskur merktur við Grænland hefur hins vegar endurheimst við Ísland en í mismiklum mæli eftir árum. Nú herma fréttir að íslenskur þorskur sé farinn að veiðast við Jan Mayen. Því er nauðsynlegt að merkingar séu stundaðar reglulega þannig að hægt sé að fylgjast stöðugt með því hvort breytingar verði á fari þorsks við Ísland.

Fyrstu merkingar á þorski við Ísland voru gerðar árið 1904 og frá þeim tíma hefur þorskur verið merktur reglulega. Frá árinu 2010 hefur hins vegar mjög lítið af þorski verið merkt á Íslandsmiðum. Merkingar veita mikilvægar upplýsingar um far fiska. Þannig hafa merkingar á þorski sem gerðar voru á 40 ára tímabili (1948 til 1996) gefið vísbendingar um hvernig kynþroska fiskur dvelur um hríð á hrygningarslóð og leggur að hrygningu lokinni af stað í ætisgöngur norður á bóginn. Þó fyrri rannsóknir hafi gefið mikilvægar upplýsingar um far, þá hafa umhverfisbreytingar í hafinu við Ísland undanfarin ár haft áhrif á útbreiðslu ýmissa sjávartegunda við landið. Því er mikilvægt að varpa á nýjan leik ljósi á far þorsksins við þessar breyttu aðstæður.

Þorskur merktur með hefðbundnum T-merkjumFiskmerki eru af mörgum gerðum en að þessu sinni var aðeins merkt með hefðbundnum utanáliggjandi T-merkjum sem eru staðsett baklægt við hliðina á bakugga. Hver fiskur var merktur með tveimur merkjum en það er gert til þess að auka líkurnar á að merki finnist ef fiskur endurheimtist og meta tíðni merkjataps. Þessi gerð merkja gefur lágmarks upplýsingar um far fiskanna, það er hvar hann er merktur og hvar hann endurheimtist. Þau gefa hins vegar ekki mikið til kynna hvað gerist á milli þessara tveggja tímapunkta.

Forsendan fyrir því að stofnunin geti stundað merkingar á þorski er samvinna sjómanna um að skila inn merkjum. Sjómenn hafa á undanförnum áratugum verið öflugir liðsmenn í merkingarverkefnum og óskar Hafrannsóknastofnun því enn á ný eftir liðsinni þeirra. Þegar sjómenn finna merktan fisk í aflanum eru þeir beðnir um að senda merkin (eða eitt merki ef hitt hefur tapast) inn til Hafrannsóknastofnunar. Hægt er að senda inn allan fiskinn eða fjarlæga merkin úr honum og senda þau inn. Ávallt þurfa að fylgja upplýsingar um staðsetningu veiðistaðar, dagsetningu, dýpi og tegund veiðarfæris. Einnig er mikilvægt að stofnunin fái aðrar upplýsingar, svo sem lengd fisksins, kyn, kynþroska og að kvarnir séu fjarlægðar og sendar með merkinu. Ekki má heldur gleyma að senda með upplýsingar um þann aðila sem sendir inn merkið. Greiddar eru 2.000 krónur fyrir endurheimt hefðbundin T-merki.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?