Mat á stærð íslenska útselsstofnsins

Mat á stærð íslenska útselsstofnsins

Nýtt stofnstærðarmat á íslenska útselsstofninum var nýlega framkvæmt af Hafrannsóknastofnun og niðurstöður verkefnisins birtar í skýrslu sem nálgast má hér.

Útselsstofinn er núna metinn vera um 6300 dýr, en þegar stofninn var metinn siðast árið 2012 var áætluð stofnstærð um 4200 dýr. Stofninn er núna metinn vera 32% minni en við fyrstu talningu sem gerð var árið 1982 en þá var stofninn metinn rúmlega 9200 dýr. Breytingar á heildarstofnstærð byggt á talningum frá 2005 til 2017 eru ekki tölfræðilega marktækar, þar sem stofnstærðin 2017 er svipuð því sem var árið 2008/9 og aðeins meiri en árið 2005.

Stofnstærðin árið 2017 er metin yfir viðmiðunarmörkum stjórnvalda, sem eru 4100 dýr. Á válista íslenskra spendýra sem er metinn samkvæmt viðmiðum Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) mun íslenski útselsstofninn því lenda í áhættuflokknum „Í nokkurri hættu“ (Vulnerable), en byggt á síðustu talningum (frá árinu 2012) var stofninn flokkaður sem stofn í hættu (Endangered).

Niðurstöður talninganna sýna að útselskæping náði hámarki á tímabilinu 2. október (Frameyjar í Breiðafirði) til 24. október (Strandir). Breiðafjörður var sem áður langmikilvægasta kæpingarsvæðið, en þar fæddust um 58% af heildarfjölda kópa haustið 2017. Önnur mikilvæg kæpingarsvæði voru Strandir og Skagafjörður á Norðurlandi vestra, ásamt Surtsey og Öræfum á Suðurlandi.

Ástand útselsstofns er talið vera töluvert betra en hjá landselsstofninum, þar sem fækkað hefur í landselsstofni um 77% frá árinu 1980 þegar mælingar hófust, og fækkað um þriðjung í stofninum á árunum 2011-2016 þegar stofnmat var síðast framkvæmt. Landselsstofninn er metinn „í bráðri hættu“ á válista íslenskra spendýra.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?