Kynleysi er kostur í fiskeldi – Rannsóknarstyrkur til doktorsnáms

Kyrrmynd úr myndbandi. Kyrrmynd úr myndbandi.

Hafrannsóknastofnun auglýsir nú styrk til doktorsnáms í tengslum við Evrópuverkefnið EATfish. Umrætt doktorsverkefni felst í að þróa nýja aðferð til að ala kynlausa fiska með svokallaðri genaþöggun. Aðferðinni er beitt á fyrstu stigum lirfuþroska og felst í að slökkva á genum í kynfrumum. Fiskarnir verða eðlilegir að öllu öðru leyti en því að þeir mynda ekki hrogn eða svil.

Takist þetta vel mun það hafa ótvíræða kosti í för með sér fyrir fiskeldi. Það myndi stórminnka hættu á erfðablöndun laxfiska við villta stofna og í bleikjueldi myndi það gera mögulegt að ala fisk við hærra hitastig og fá þannig hraðari vöxt og stærri fisk án hættu á kynþroska, en kynþroska eldisfiskar eru ekki söluvara.

Evrópuverkefnið EATFish, sem Hafrannsóknastofnun er aðili að, hófst formlega með fundi sem haldinn var 21. janúar 2021. Um er að ræða þverfaglegt samstarf háskóla, rannsóknastofnana og aðila úr viðskipta- og iðnaðargeiranum um nýstárlegar rannsóknir á líffræði- og tæknilegum þáttum fiskeldis sem samþætt er við samfélags- og efnahagslega þætti.

Verkefnið fékk veglegan styrk frá Marie Curie áætlun Evrópusambandsins og er verkefnisstjórn í höndum Wageningenháskóla í Hollandi. Alls munu 15 doktorsnemar víðs vegar um Evrópu hljóta styrki og þar af einn hjá Hafrannsóknastofnun sem mun útskrifast frá Háskóla Íslands.

Samkvæmt reglum sjóðsins má nemandinn vera af hvaða þjóðerni sem er en þess er krafist að hann flytji búsetu milli landa og hafi á síðustu þremur árum verið búsettur að minnsta kosti í 24 mánuði í öðru landi en landi styrkþega. Þannig má doktorsnemi hjá Hafrannsóknastofnun að hámarki hafa búið á Íslandi í 12 mánuði síðustu þrjú árin áður en verkefnið hefst.

Hafrannsóknastofnun mun auglýsa stöðuna á vísindavefsíðum um allan heim og hefur gert myndband um rannsóknarverkefnið til að laða að sem flesta hæfa nemendur. Smelltu hér til að horfa á myndband.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?