Horfið frá ráðgjöf um svæðaskipt loðnuaflamark

Loðna. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir. Loðna. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Hafrannsóknastofnun hefur ákveðið að endurskoða loðnuveiðiráðgjöf sem gefin var út 24. febrúar 2023 fyrir núverandi fiskveiðiár.

Endurskoðunin felst í því að Hafrannsóknastofnun telur óhætt að hverfa frá ráðgjöf um svæðaskipt aflamark. Endurskoðunin byggir á ítarlegri yfirferð veiðiskipa fyrir Norðurlandi, með sérstaka áherslu á Húnaflóasvæðið, ásamt könnun rannsóknaskipsins Bjarna Sæmundssonar og veiðiskipsins Venusar NS út af norðanverðum Vestfjörðum dagana 27. febrúar til 2. mars. Þessar athuganir gefa til kynna að loðnan sem mældist út af Húnaflóa 12.-21. febrúar sé nú á göngu vestur fyrir land. Gert er því ráð fyrir að hún muni hrygna þar, en ekki fyrir norðan land líkt og var forsenda fyrri ráðgjafar um að veiðar fari fram fyrir norðan land.

Heildaraflamarkið er hinsvegar óbreytt frá fyrri ráðgjöf, eða 459 800 tonn.

Hlekkur á ráðgjöf loðnu og tækniskjal.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?