Hitastig sjávar á heimsvísu hefur aldrei mælst hærra

Hitastig sjávar á heimsvísu hefur aldrei mælst hærra

Ný skýrsla um ástand sjávar var kynnt í síðustu viku en hún var gefin út á vegum Alþjóðahaffræðinefndar UNESCO (IOC) með stuðningi íslenskra stjórnvalda. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að hitastig sjávar á heimsvísu hefur aldrei mælst hærra en á síðasta ári og hefur hraði hækkunar sjávarborðs og hlýnunar tvöfaldast síðustu tvo áratugi.

Vidar Helgesen, framkvæmdastjóri IOC og aðstoðarframkvæmdastjóri UNESCO

Í tilefni af útgáfu skýrslunnar efndu Hafrannsóknastofnun, utanríkisráðuneytið, og IOC til opins fundar um efni skýrslunnar þann 3. júní sl. í höfuðstöðvum Hafrannsóknastofnunar í Hafnarfirði. Tilgangur með gerð hennar er að fræða stjórnvöld um ástand hafsins og efla hafrannsóknir og ákvarðanatöku í málefnum hafsins í þeirri viðleitni að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, ekki síst markmiði 14 um líf í vatni. Sömuleiðis að vinna að vernd líffræðilegs fjölbreytileika og draga úr hættu á hamförum.

 

Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar var fundarstjóri en í pallborði sitja Vildar Helgesen framkvæmdastjóri IOC og Kirsten Isensee sem var ritstjóri skýrslunnar. 

Yfir 100 vísindamenn frá 28 ríkjum unnu að gerð skýrslunnar, sem fjallar um nýlegar hafrannsóknir, núverandi ástand hafsins og framtíðarspá, með áherslu á mengun, súrnun sjávar, breytingar á vistkerfum sjávar og eftirlits- og stjórnunarhætti þegar kemur að málefnum  .

Í skýrslunni kemur fram að frá 1960 hafa höf jarðar tapað 2% af súrefni sínu og í dag eru 500 svokölluð dauð svæði meðfram ströndum jarðar þar sem sjávarlíf á erfitt uppdráttar vegna súrefnisskorts, mengunar, afrennslis frá landbúnaði og hækkandi hitastigs.

Fundurinn var vel sóttur, bæði staðbundið en einnig tók um 80 manns þátt í fundinum í streymi. Fremst á myndinni má sjá Vidar Helgesen framkvæmdastjóri IOC, utanríkisráðherra Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og matvælaráðherra Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Á bilinu 20-30% af koldíoxíði sem mannfólk losar út í andrúmsloftið er tekið upp af hafinu og af þeim sökum hafa úthöf súrnað um 30% frá því fyrir iðnbyltingu. Talsverðar breytingar á sýrustigi sjávar mælast á strandsvæðum sem er áhyggjuefni. Vakin er sérstök athygli á því að vistkerfi sjávar eru undir fjölþættu álagi sem stafar af útblæstri koldíoxíðs og ýmsu öðru orsökum að auki. Þetta er alvarleg ógn við líffræðilega fjölbreytni og virkni vistkerfa sjávar sem mikilvægt er að bregðast við.

Líkt og á Íslandi stafar plastmengun í Atlantshafi og Indlandshafi aðallega af veiðarfærum sem hent hefur verið fyrir borð eða tapast í sjóinn.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni. 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?