Fögnum alþjóðlegum degi vatnsins í dag, 22. mars

Líklega er íslenska vatnið best í heimi. Mörgum útlendingnum þykir merkilegt að hægt sé að drekka va… Líklega er íslenska vatnið best í heimi. Mörgum útlendingnum þykir merkilegt að hægt sé að drekka vatnið beint úr ám og lækjum landsins án vangaveltna um hreinleika þess. Mynd: Jón S. Ólafsson.

Fögnum alþjóðlegum degi vatnsins í dag, 22. mars

Í dag 22. mars er Alþjóðlegur dagur vatnsins. Það er svo sannarlega ástæða fyrir Íslendinga að fagna þeim degi sem og vatninu okkar. Fyrir utan fiskinn í sjónum er líklega engin auðlind mikilvægari fyrir okkur en einmitt vatnið sem er undirstaðan veiði í ám og vötnum en einnig fyrir orkufrekan iðnað vegna raforkurframleiðslu frá fallvötnum og jarðhitagufu. Að auki er vatnið er undirstaðan fyrir ferðaþjónustuna sem hefur skipað sér sess sem ein mikilvægasta atvinnugrein landsins; því hvað væri Ísland án áa, vatna, fossa, goshvera og jarðhitasvæða, jökla – því öll þessi undur náttúrunnar sem bæði landinn og ferðamenn flykkjast til að dásama er jú vatn í ýmsum myndum, allt eftir hitastigi.

 


Mynd: Jón S. Ólafsson

Við Íslendingar eru lukkunar pamfílar þegar kemur að vatni því aðeins um 0,5% af vatni á jörðinni er aðgengilegt og drykkjarhæft og býr um helmingur jarðarbúa via vatnsskort einhvern hluta ársins. Þessi dýrmætasta auðlind jarðar fer minnkandi með hverju árinu og eiga loftslagsbreytingar stærstan þátt í þessari hnignun. Á sama tíma fjölgar jarðarbúum og samfélög breytast svo að ásælni í vatn eykst sífellt. Þessar breytingar munu hafa miklar áskoranir í för með sér hvað varðar framboð á matvælum enda er talið að rúmlega 70% af öllu aðgengilegu ferskvatni sé að meðaltali notað í landbúnaði.

Aðgangi að ferskvatni er mjög misskipt innan landsvæða og á milli landa á jörðinni. Þegar vatnsauðlindin fer þverrandi hvað varðar magn og gæði getur ágreiningur aukist um þá dropa sem eftir eru til skiptanna. Vatn spilar því oft veigamikinn þátt í deilum og ófriði, ýmist í upphafi þeirra en yfirráð yfir vatni geta einnig verið nýtt sem tól í hernaði.

Mynd: Jón S. Ólafsson

Áhersla á aukna samvinnu um vatn og nýtingu þess

Í ár snýr Alþjóðlegur dagur vatnsins að því að leggja áherslu á jákvæða samvinnu er varðar vatn og nýtingu þess milli svæða og mismunandi geira samfélagsins. Aukin samvinna um vatn mun flýta framfylgd margra Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, og þar með auka matvælaöryggi, viðhalda betri lífskjörum og heilbrigðari vistkerfum, byggja upp viðnám gegn loftslagsbreytingum, minnka áhættu vegna hamfara og stuðla að sameiningu og friði.

Mikilvægast er að hafa í huga að ganga vel um þessa auðlind til að afkomendur okkar geti notið hennar engu síður en við sjálf.

Texti þessi er að hluta til fenginn að láni frá Veðurstofu Íslands, sjá hér.

Frekari upplýsingar hér: Íslenska vatnafræðinefndina.

Frekari upplýsingar um daginn má finna á heimasíðu Alþjóðlega dags vatnsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?