Árvekni sjómanna mikilvæg í vöktun á útbreiðslu fisktegunda

Ljósm. Jónbjörn Pálsson Ljósm. Jónbjörn Pálsson

Í gegnum árin hafa fjölmargir sjómenn haft samband við Hafrannsóknastofnun þegar þeir rekast á óvænta eða óþekkta fisktegund í afla. Framlag þeirra er mikilvægt til að skilja betur útbreiðslu fjölmargra tegunda og hjálpar vísindamönnum að fylgjast með mögulegum breytingum í sjónum. Nýverið kom út vísindagrein sem uppfærir upplýsingar um útbreiðslu fisktegundarinnar dökksilfra (Diretmichthys parini) í N-Atlantshafi; m.a. á Íslandsmiðum. Upplýsingar um fundarstaði dökksilfra á hafsvæðinu umhverfis Ísland hafa að stórum hluta komið frá sjómönnum. Þessi vísindagrein er því að miklu leyti afurð árvekni sjómanna fyrir nýjum og/eða sjaldgæfum fiskitegundum. Samfélagsmiðlar geta einnig verið hjálplegir í þessum efnum og þannig kemur fiskmarkaður Snæfellsbæjar við sögu í greininni, en fyrirtækið birti mynd af dökksilfra á Facebook síðu sinni og óskaði eftir uppástungum um tegundaheiti (sjá mynd). Greinin um dökksilfra er birt í vísindatímariti (https://sfi-cybium.fr/en/node/4759) og nálgast má hana í heild sinni hjá einum höfunda (klara.jakobsdottir@hafogvatn.is).

skjámynd

Í greininni er sýnt skjáskot af Facebook síðu Fiskmarkaðar Snæfellsbæjar með mynd af dökksilfra.

Vefsíða á sjávarlífverur hjá Hafrannsóknastofnun.

 

 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?