Ársfundur WGINOR

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Ársfundur vinnuhóps innan vébanda Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) sem rannsakar vistkerfi Noregshafs og þróar aðferðir fyrir vistfræðilega stjórnun á nýtingu hafsvæðisins verður haldinn vikuna 22.-26.nóvember, í húsi Hafrannsóknastofnunar ásamt því að vera í gegnum fjarfundarbúnað.

Vinnuhópurinn er kallaður „Working Group on Integrated Ecosystem Assessments for the Norwegian Sea“ (WGINOR) og í honum eru 56 vísindamenn frá Noregi, Danmörku, Færeyjum, Frakklandi, Kanada, Grænlandi, Portugal og Íslandi. Vinna hópsins felur í sér rannsóknir á tengslum mismunandi þátta vistkerfisins, að viðhalda og greina tímaraðir gagna og þróa líkön sem henta slíkri vistkerfisnálgun. Gögn til grundvallar vinnunnar koma m.a. frá alþjóðlegum rannsóknarleiðöngrum sem Hafrannsóknastofnun er aðili að.

Viðfangsefni fundarins að þessu sinni eru meðal annars að uppfæra samantekt á „yfirliti yfir vistkerfi Noregshafs“. Ritið er samantekt um helstu breytingar í vistkerfi Noregshafs undanfarna áratugi. Eitt af markmiðum hópsins er að auka samstarf vísindamanna og hagsmunaraðila sjávarútvegsins og í vikunni verður samráðsfundur með hagsmunaðilum þar sem vinna hópsins verður kynnt og samræður milli aðila fara fram.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu vinnuhópsins: https://www.ices.dk/community/groups/Pages/WGINOR.aspx

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?