Ársfundur Hafrannsóknastofnunar 13. nóvember, kl. 14-16

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Ársfundur Hafrannsóknastofnunar var haldinn 13. nóvember 2020 milli kl. 14 og 16. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnar fundinn.

Ávörp flytja, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Sigurður Guðjónsson forstjóri. Þrír sérfræðingar hjá Hafrannsóknastofnun fluttu erindi.

Í ljósi reglugerðar um takmörkun á samkomum var fundinum eingöngu streymt á YouTube rás Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna.  

Ávarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Dagskrá:

Ávarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Kristján Þór Júlíusson  Kl. 14:00 
Ávarp rektors Háskóla Íslands Jón Atli Benediktsson 

Kl. 14:10 

Ávarp forstjóra Hafrannsóknastofnunar

Sigurður Guðjónsson  Kl. 14:20 

Makríllinn, hvað er þessi dyntótti fiskur að gera?

Anna H. Ólafsdóttir  Kl. 14:40  

Humar í hnignun?

Jónas Páll Jónasson  Kl. 15:00 

Er laxinn í krísu?

Guðni Guðbergsson  Kl. 15:20 


Fundarstjóri: Hrönn Egilsdóttir

Ágrip erinda:

Makríllinn, hvað er þessi dyntótti fiskur að gera?
Makríll byrjaði óvænt að ganga inn í íslenska lögsögu suðaustur af landinu í verulegu magni sumarið 2007. Samkvæmt niðurstöðum fjölþjóða sumaruppsjávarleiðangurs jókst útbreiðsla makríls næstu árin. Hann var kominn vestur fyrir Ísland sumarið 2010 og að Hvarfi í Grænlandi sumarið 2014. Strax sumarið 2015 byrjaði útbreiðslusvæði hans að minnka ár frá ári. Sumarið 2019 mældist enginn makríll í grænlenskri lögsögu og sumarið 2020 mældist nánast enginn makríll í íslenskri lögsögu. Tilgátur um áhrif stofnstærðar, hitastigs og fæðuframboðs á útbreiðslu makríls hafa verið settir fram en breytingar í útbreiðslu síðustu ár benda til að fleiri þættir hafa áhrif á útbreiðslu makríls.

Humar í hnignun?
Veiðar á leturhumri hafa verið stundaðar við Ísland síðan 1950. Þær hafa sveiflast nokkuð þann tíma, bæði sökum sterkra nýliðunarpúlsa og bættrar sóknarstýringar þegar á leið. Hlýindaskeið hófst árið 1996 og uppúr því komu inn mjög sterkir árgangar og stofninn stækkaði. Síðan árið 2005 hafa hinsvegar allir árgangar verið afspyrnu lélegir og hefur það komið fram í hnignandi aflabrögðum og lækkandi ráðgjöf. Árið 2005 mælist samfara, einnig hæsti hiti og selta síðustu 30 árin en það ástand hélst til 2010. Síðan þá hefur hiti og selta farið lækkandi á humarmiðunum. Humar kemur fyrst í veiði við um 5 ára aldur og eru því áhrif nýlegra breytinga á ástandi sjávar óviss. Árið 2016 var ný aðferðafræði tekin upp við stofnmat humars er byggir á því að telja humarholur á veiðislóð, en humarinn dvelur oft langdvölum í holu sinni og hentar því ekki að meta stofnvísitölur með botnvörpu. Nú er í gangi rannsókn sem vonandi getur varpað betra ljósi á atferli humarsins þar sem hlustað er eftir merktum humrum á tveimur svæðum í Jökuldjúpi.

Er laxinn í krísu?
Sveiflur í laxveiði hafa verið óvenju miklar á síðustu árum. Hvað er að marka veiðiskráninguna og eru veiðitölur að endurspegla fiskgengd? Laxveiði er mikilvæg fyrir veiðiréttarhafa, leigutaka og síðast en ekki síst fyrir þá sem stunda veiði og gera kröfur um að upplifun þeirra standi undir væntingum. Þegar verr veiðist koma oft kröfur um að eitthvað þurfi að gera, nú þurfi að stunda fiskrækt, vatnsmiðlun eða eitthvað annað. En hvað er hægt að gera? Hvað má gera og hvað afleiðingar geta aðgerðir haft? Mörkuð hefur verið sú stefna alþjóðastofnana að setja beri viðmiðunarmörk fyrir stærð hrygningarstofna fyrir alla laxastofna við Norður-Atlantshaf. En á hverju byggja viðmiðunarmörk og hvar er sú vinna stödd hér á landi? Hvernig nýtast viðmiðunarmörk sem grundvöllur veiðistjórnunar?

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?