Rs. Árni Friðriksson í makrílrannsóknum

Leiðarlína Árna Friðrikssonar (bleik lína) og fyrirfram ákveðnar yfirborðstogstöðvar (opnir svartir … Leiðarlína Árna Friðrikssonar (bleik lína) og fyrirfram ákveðnar yfirborðstogstöðvar (opnir svartir hringir) í sumaruppsjávarleiðangri dagana 5.-27. júlí 2021. Leiðangurinn hefst út af Vestfjörðum og siglt er réttsælis um landið. Leiðangurssvæðinu er skipt í fimm svæði (gul lína) og er fjarlægð á milli yfirborðstogstöðva og leiðarlína sú sama innan hvers svæðis en mismunandi á milli svæða. Skip frá Færeyjum og Noregi munu mæla fyrir austan landið ásamt Árna og eru leiðarlínur þeirra ekki sýndar. Íslandsdjúp verður ekki rannsakað í ár.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson fór úr höfn í dag til þátttöku í árlegum fjölþjóðlegum leiðangri, svokölluðum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi (IESSNS, International Ecosystem Summer Survey in the Nordic Seas). Þetta er tólfta árið í röð sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í leiðangrinum ásamt skipum frá Noregi, Færeyjum og Danmörku. Í ár verður ekkert skip frá Grænlandi og leiðangurssvæðið því minna en síðustu ár. Minnkunin nær yfir hafsvæði innan vesturhluta grænlensku landhelginnar og Íslandsdjúps. Fyrirhugaðar leiðarlínur Árna Friðrikssonar eru sýndar á mynd. Líkt og á síðasta ári er hægt að fylgjast með staðsetningu og feril Árna á slóðinni: https://skip.hafro.is/

Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins er að meta magn og útbreiðslu makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í norðaustur Atlantshafi að sumarlagi. Í leiðangrinum verður einnig aflað gagna sem nýtast við fjölbreyttar rannsóknir á ýmsum þáttum vistkerfisins frá frumframleiðni sjávar til útbreiðslu hvala. Gögnum verður safnað fyrir 20 rannsóknarverkefni.

Leiðangurinn á Árna stendur í 23 daga og verða sigldar tæplega 4100 sjómílur eða um 7500 km. Um borð eru 6 vísindamenn og 17 manna áhöfn. Eins og fyrri ár mun leiðangursfólkið halda úti bloggi þar sem hægt verður að fylgjast með rannsóknum um borð og daglegu lífi. Bloggið er á slóðinni: pelagicecosystemsurvey.wordpress.com


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?