Vígatanni

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Evermannella balbo
Enska: Saber-tooth fish
Þýska: Balbo-Säbelzahnfisch
Spænska: Espant

Vígatanni er þunnvaxinn og hausstór fiskur með rörlaga augu sem vísa upp og örlítið fram á við. Á skoltum eru vígalegar tennur. Uggar eru allir vel þroskaðir, bakuggi er rétt framan við miðjan fisk, raufarugginn alllangur og andspænis honum aftanverðum er lítill veiðiuggi. Eyruggar eru allstórir. Kviðuggar eru andspænis bakugga um miðja vegu á milli eyr- og raufarugga. Sporður er sýldur. Aftan til á stirtlu sést í þrískiptan vöðvavef eins og mynstur. Stærð er a.m.k. 17 cm að sporði.

Litur er breytilegur en oft Ijós með svörtum deplum á hliðum auk fjölda svartra punkta.

Geislar: B: 12-13,- R: 33-37,- hryggjarliðir: 52-54.

Heimkynni: Vígatanni lifir í Miðjarðarhafi og Norður-Atlantshafi, frá Grænlandshafi og djúpmiðum suðvestan Íslands suður til 30°N. Hans hefur einnig orðið vart í norðvestanverðu Atlantshafi á Flæmingjagrunni og víðar og einnig í Suður-Atlantshafi á milli 25° og 40°S. Þá hefur hans orðið vart í Indlandshafi.

Á Íslandsmiðum veiddist einn 12,5 cm langur á 550-750 m dýpi þar sem botndýpi var 1460 m á Reykjaneshrygg rétt innan við 200 sjómílna mörkin (61°48'N, 27°50'V) í júní lok árið 1999 og annar 13,5 cm langur í byrjun júlí á svipuðum slóðum (63°14'N, 28°09'V) og á sama dýpi yfir 1630-1825 m botndýpi. Þá veiddust einnig í júní sama ár tveir vígatannar utan 200 sjómílna markanna djúpt suðvestur af Reykjanesi. Áður, þ.e. í maí 1998, veiddust þrír vígatannar, 10-11 cm langir að sporði, rétt utan 200 sjómílna markanna suðvestur af Reykjanesi. Í júní árið 2001 veiddist einn 12,5 cm langur á 700 m dýpi þar sem botndýpi var rúmlega 1500 m um 200 sjómílur suðvestur af Reykjanesi (62°20'N, 28°05'V). Í júní árið 2003 veiddist einn 13 cm langur á 500-950 m dýpi djúpt suðvestur af Reykjanesi (62° 1 l'N, 27°03'V) og annar á 600-700 m dýpi utan Íslenskrar lögsögu austan Reykjaneshryggjar (59°44'N, 26°16'V). Hann var einnig 13 cm langur.

Lífshættir: Vígatanni er úthafs- og miðsævisfiskur sem heldur sig oftast á meira dýpi en 400 m en álpast stundum grynnra, einkum seiði og ókynþroska fiskur.

Fæða er alls konar miðsævisfiskar. Um hrygningu er ekkert vitað.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?