Vartari

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Dicentrarchus labrax
Danska: Bars
Norska: Havabbor
Sænska: Havsabborre
Pólska: Labraks
Enska: Sea bass
Þýska: Seebarsch
Franska: Bar commun
Spænska: Lubina
Portúgalska: Robalo-legítimo
Rússneska: Лаврак / Lavrák, Морской волк / Morskój volk

Vartari er langvaxinn fiskur með frammjóan haus og teygist neðri skoltur örlítið fram fyrir þann efri. Kjaftur er af meðalstærð og tennur smáar og oddhvassar. Augu eru allstór og langt bil á milli þeirra. Á tálknaloki eru tveir gaddar og kinnbein eru smátennt á neðra horni. Bakuggar eru tveir eða einn tvískiptur og eru sjö til níu broddgeislar í þeim fremri en einn broddgeisli og 12-13 liðgeislar í þeim aftari. Raufaruggi er styttri en aftari bakuggi og byrjar á móts við hann miðjan og eru þrír broddgeislar í honum framanverðum. Sporður er stór og grunnsýldur. Eyr- og kviðuggar eru í meðallagi stórir. Rák er greinileg. Vartari getur náð rúmlega 100 cm Iengd.

Litur: Vartari er blýgrár á lit á baki, silfurgrár á hliðum, silfurhvítur að neðan og með litla svarta bletti á baki og hliðum. Á tálknaloki er dökkbrúnn blettur. Fremri bakuggi, eyr- og kviðuggar eru ljósleitir en aðrir uggar eru svartleitir.

Geislar: Bl: VII-IX,- B2: 1 + 12-13,- R: HI+10-12; hryggjarliðir: 25-26.

Heimkynni vartara eru í Miðjarðarhafi og inn í Svartahaf, í norðaustanverðu Atlantshafi frá Senegal í Afríku til Marokkós og Kanaríeyja og þaðan áfram norður til Bretlandseyja og í sunnanverðum Norðursjó. Einnig slæðist hann til Danmerkur og Noregs og einu sinni hefur hann veiðst við Ísland en það var í ágúst árið 1967 þegar 39 cm hængur veiddist í Glerárósi í Dölum og hlaut þá íslenska nafnið vartari.

Lífshættir: Vartari er torfufiskur sem heldur sig í strandnánd á vorin og sumrin en fjarlægist strandsjóinn á veturna. Ungir fiskar leita gjarna upp í ár og árósa.

Fæða er smákrabbadýr, lindýr, fiskar eins og sandsíli, síld, brislingur og sardína og fleira.

Hrygning fer fram í mars til ágúst með hámarki í maí við Bretlandseyjar, í janúar til mars í Miðjarðarhafi. Egg og seiði eru sviflæg. Vöxtur er hraður og getur vartari orðið a.m.k. 15 ára gamall.

Nytjar: Vartari er eftirsóttur sportveiðifiskur og matfiskur og er víða ræktaður. Hér var hann ræktaður á Sauðárkróki og í Fljótum á árunum 1992-2003.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?