Úthafsangi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Maulisia microlepis
Danska: Småskællet skulderlysfisk
Enska: Smallscale searsid

Úthafsangi er lítill, langvaxinn og þunnvaxinn fiskur með stóran haus, en hann er um þriðjungur af lengd fisksins. Eins og á njarðaranga myndar ennisbeinið þrístrenda plötu yfir augum. Trjóna er oddmjó og bak- og raufaruggi eru andspænis hvor öðrum. Fremri rætur raufarugga eru þó aðeins aftar en fremri rætur bakugga. Eyr- og kviðuggar eru frekar smáir. Kviðuggar eru um miðjan fisk. Rák er greinileg og með 46-57 hreisturblöð.

Ljósfæri vantar á úthafsanga en hin tegund ættkvíslarinnar sem finnst á íslandsmiðum, njarðarangi (sjá hér á undan), er með Ijósfæri. Úthafsangi verður um 30 cm á lengd.

Litur: Úthafsangi er dökkur á lit.

Geislar: B: 18-21,- R: 15-18.

Heimkynni: Úthafsangi hefur veiðst í Norðvestur-Atlantshafi á milli 30 og 60°N svo og út af Fyllubanka við Vestur-Grænland og í Norðaustur-Atlantshafi djúpt suðaustur af Hvarfi við Grænland, undan Ammasalik við Austur-Grænland og á Íslandsmiðum. Einnig hefur hann fundist við Asóreyjar, Namibíu og í austanverðu Suður-lndlandshafi.

Fyrsti úthafsanginn sem Hafrannsóknastofnun barst til rannsókna mun hafa veiðst undan Suðvestur- eða Vesturlandi árið 1993 og í maí árið eftir veiddust þrír, 25, 26 og 29 cm langir, í flotvörpu Íslensks togara á 660—730 m dýpi suðaustur af Hvarfi langt utan 200 sjómílna markanna. Árið 1995 veiddust fjórir á sömu slóðum í flotvörpu á 690-880 m dýpi og 1998 fengust tveir í flotvörpu, annar innan Íslensku lögsögunnar, 13 cm langur, á 650 m dýpi djúpt suður af Reykjanesi (62°40'N, 23°06'V) og hinn, 11 cm, á 500 m dýpi rétt utan fiskveiðimarkanna suðvestur af Reykjanesi (61°24'N, 28°32'V).

Lífshættir: Úthafsanginn er miðsævis-, úthafs- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 500- 2000 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?