Túnfiskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Thunnus thynnus
Danska: Atlantisk tun
Færeyska: Tunfiskur
Norska: Makrellstørje
Sænska: Tonfisk
Pólska: Tuńczyk zwykły
Enska: Northern bluefin tuna
Þýska: Roter Thun
Franska: Roter Thun, Thon
Spænska: Atún rojo
Portúgalska: Atum
Rússneska: Тунец синий {обыкновенный} / Tunéts sínij {obyknovénnyj}

Túnfiskur er stórvaxinn fiskur og straumlínulaga, hæstur um miðju og er hæð hans þar tæpur fjórðungur lengdarinnar. Haus er stór, um fjórðungur lengdar. Kjaftur er fremur lítill og ná skoltar varla aftur á móts við augu, sem einnig eru fremur smá. Tennur eru smáar, bæði á skoltum, plógbeini og gómbeinum. Bakuggar eru tveir og er mjög stutt bil á milli þeirra. Í þeim fremri eru broddgeislar sem hægt er að fella niður í rauf og minnka þannig mótstöðuna á sundi. Raufaruggi er andspænis aftari bakugga, svipaður honum í lögun en minni. Aftan við bakugga eru 8-11 smáuggar og 7-11 aftan raufarugga. Þessa smáugga getur túnfiskurinn hreyft til beggja hliða líkt og segl eða stýri á skipi. Sporður er stór og hálfmánalaga. Stirtla er sterkleg og á hvorri hlið hennar er kjölur. Eyruggar eru langir en ná þó ekki eins langt aftur og eyruggar annarra tegunda ættkvíslarinnar. Kviðuggar eru allvel þroskaðir og eru undir eyruggum. Smátt hreistur þekur bol og stirtlu en á framanverðum hliðum er gróft hreistur. Rák er greinileg þar sem hún liggur ofan eyrugga og aftur eftir stirtlu. Túnfiskur verður um þrír metrar og 300 kg. Áður þekktust lengri túnfiskar, 4-5 m langir og þyngri en 600 kg.

Litur: Túnfiskur er dökkblár á lit á baki en hliðar eru hvítar með silfurlitum blettum. Kviður er hvítur. Uggar eru dökkbláir eða svartir nema aftari bakuggi er rauðbrúnn. Raufaruggi og smáuggar eru gulleitir.

Geislar: B1: XII-XV,- B2: 1 + 13-15,- smáuggar: 8-11; R: 11-12,- smáuggar: 7-10,- hryggjarliðir: 39.

Heimkynni túnfisks eru í Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi. Hann er mikill flökkufiskur og flækist þvert yfir heimshöfin fram og aftur. Talið er að túnfiskurinn gangi aðallega meðfram meginlöndum þótt hluti fiska fari þvert yfir Atlantshafið. Hann er í Miðjarðarhafi og austanverðu Norður- Atlantshafi frá Afríku og Asór- og Kanarí- eyjum norður til Bretlandseyja. Einnig fer hann inn í Norðursjó og til stranda Noregs og allt norður til Múrmansk getur hann flækst. Hann er djúpt suður af Íslandi og þvælist til grunnmiða landsins en er sjaldséður þar. Í vestanverðu Norður-Atlantshafi finnst túnfiskur frá Labrador og Nýfundnalandi suður í Mexikóflóa og Karíbahaf og jafnvel til Venesúela og Brasilíu. Túnfiskur hefur fundist einu sinni við Suðvestur-Grænland (Quqortoq = Julianeháb) árið 1900. Túnfiskur merktur við Bahamaeyjar hefur endurveiðst við Noreg og einnig undan ströndum Brasilíu. Í Norður- Kyrrahafi frá Alaska til Suður-Kaliforníu og eynni Sjakalín til Filippseyja er undirtegundin Thunnus thynnus orientalis.

Útbreiðsla túnfisks hefur breyst allnokkuð undanfarna áratugi. Þannig var hann allalgengur við Noreg og Svíþjóð og einnig við Marokkó í Norðvestur-Afríku á sjötta áratug 20. aldar en hvarf þaðan síðar. Talið er að samspil lækkaðs hitastigs, hrun helstu fæðustofna eins og síldar, auk minnkandi stofnstærðar túnfisks í kjölfar mikilla veiða á árunum eftir heimsstyrjöldina síðari hafi haft í för með sér minna útbreiðslusvæði.

Hér við land fannst túnfiskur fyrst rekinn í nóvember árið 1757 á Eyjafjallasandi. Síðan hefur hans orðið vart nokkrum sinnum, oftast rekinn á fjörur en einnig hafa veiðst nokkrar hauskúpur í botnvörpur. Í ágúst 1929 sáust nokkrir túnfiskar út af Austfjörðum og gengu nokkrir inn undir Neskaupstað í Norðfirði. Um sama leyti varð vart vöðu (40-50 fiska) inni á Arnarfirði alveg inn í Suðurfjörðu. Á tímabilinu frá miðjum ágúst til 1. september árið 1944 varð vart tuga ef ekki hundraða túnfiska við Ísafjarðardjúp og veiddust sex á stóra öngla. Í september árið 1980 veiddist haus og hluti af bol túnfisks í botnvörpu á 55 m dýpi um fjórar sjómílur suðaustur af Ingólfshöfða. Hausinn var 55 cm langur og túnfiskurinn hefur því verið um 220-230 cm.

Lífshættir: Túnfiskurinn er uppsjávar- og miðsævisfiskur sem heldur sig gjarna í úthafinu en leitar reglulega til strandar eftir árstímum. Hann er mikill göngufiskur og flækist m.a. þvert yfir Atlantshafið á milli stranda Evrópu og Ameríku og þá slæðist hann inn í lögsögu okkar suðvestan-, sunnan- og suðaustanlands. Hann er torfufiskur og eru yngstu fiskarnir í stærstu torfunum en stærstu fiskarnir og þeir elstu fara einförum. Hann heldur sig í úthafinu á veturna en eins og frændi hans, makríllinn, leitar hann stranda á vorin og sumrin þegar hlýnar. Þannig leitar hann á hrygningarslóðir í Miðjarðarhafi og Mexíkóflóa á vorin en gengur með meginlöndum og út á mitt Atlantshaf seinni hluta sumars og á haustin í fæðuleit. Útbreiðsla hans síðari hluta vetrar er ennþá ekki alveg Ijós. Hann heldur sig nálægt yfirborði nema á veturna þegar kólna tekur. Þá heldur hann sig á rúmlega 20—200 m dýpi og kemur varla upp á yfirborðið.

Fæða túnfisks er einkum alls konar fiskar, t.d. síld, makríll, lýsa, brislingur, sandsíli auk smokkfisks og fleira. Ungir túnfiskar éta ljósátu og fleiri krabbadýr. Rannsóknir á fæðu túnfisks sem japönsk veiðiskip hafa veitt á Íslandsmiðum undanfarin ár sýna að hann étur einkum beitusmokk, dílasmokk (Gonatus fahricii), geirsíli og oft kolmunna. Einnig finnast í maga hans norræna gulldepla, grænlandsnaggur, kistufiskur og ýmsar laxsíldategundir. Í maga túnfisks sem veiddist suðaustur af Ingólfshöfða og minnst er á hér á undan voru sex lýsur, tvær ýsur (34 og 54 cm langar) og tvær síldar.

Hrygning fer fram í Miðjarðarhafi í júní, júlí og ágúst og er talið að megnið af þeim túnfiski sem gengur inn á íslenskt hafsvæði komi úr Miðjarðarhafi. Í austanverðu Atlantshafi hrygnir túnfiskurinn frá seinni hluta maí til júlí. Í vestanverðu Norður-Atlantshafi hrygnir hann í Mexíkóflóa frá miðjum apríl til miðs júní. Eggjafjöldi getur orðið allt að 10-30 milljónir. Þau eru sviflæg og 1 mm í þvermál og klekjast á 2-3 dögum. Lirfan er 3-4 mm við klak. Kynþroska er náð við 4—5 ára aldur í austanverðu Atlantshafi. Túnfiskurinn í vestanverðu Atlantshafi er talinn ná kynþroska síðar eða um 8 ára aldur. Túnfiskurinn getur orðið um 30 ára gamall þótt fáir fiskar nái þeim aldri sökum mikils veiðiálags. Þeir túnfiskar sem hafa verið aldursákvarðaðir úr veiði á Íslandsmiðum eru elstir 17 ára en flestir þeirra eru 7—9 ára gamlir.

Nytjar: Nytsemi er talsverð og hafa túnfiskveiðar verið stundaðar í árþúsundir. Gríski heimspekingurinn Aristóteles (384- 322 f.Kr.) rannsakaði og skrifaði m.a. um túnfisk. Spánverjar, Frakkar og Portúgalir hafa einkum fengist við túnfiskveiðar í norðaustanverðu Atlantshafi og nú á síðari árum Japanir. Aðalveiðisvæði hafa verið í Miðjarðarhafi, Biskajaflóa, við Portúgal, Asóreyjar og stundum í Norðursjó. Einnig hafa veiðar úti á miðju Atlantshafi færst í vöxt síðustu áratugi. Túnfiskurinn er veiddur í herpinót, á flotlínu og dorg. Undan ströndum Suður-Evrópu eru notaðar risastórar botnnætur. Undanfarin ár hefur færst í vöxt að fanga fisk í stórar gildrur, ala hann og slátra eftir þörfum. Einnig er túnfiskur vinsæll sportveiðifiskur.

Japanir hófu árið 1996 tilraunaveiðar á túnfiski í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og stunduðu þær áfram utan og innan 200 sjómílna lögsögunnar djúpt suðvestur, suður og suðaustur af Íslandi, að mestu sunnan 61°N. Beittu þeir flotlínu sem var um 70 sjómílna löng með allt að 3000 krókum og voru öngultaumarnir á 50-150 m dýpi. Árið 1999 hófu Íslensk skip túnfiskveiðar á svipuðum slóðum. Afli Japana varð mestur árið 1998 rúmlega 244 tonn eða 2258 fiskar. Þeir hættu veiðum 2005.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?