Trjónunefur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Gigantactis vanhoeffeni
Danska: Vanhøffenis piskeangler
Enska: Whipnose

Trjónunefur er langvaxinn fiskur og fremur þunnvaxinn með meðalstóran haus og langa trjónu eða „veiðistöng". Trjónan getur verið lengri en lengd fisksins að sporðblöðku. Á enda „stangarinnar" er ljósfæri. Augu eru lítil. Nokkrar sterklegar tennur eru á neðri skolti. Roð er slétt og gaddalaust. Trjónunefur getur orðið 39 cm á lengd án trjónustangar. Hængar eru miklu smærri en hrygnur, sem ofangreind lýsing á við um, eða um 1,7—2,2 cm fullvaxnir.

Litur er brúnn.

Geislar: B: 5-7; R: 5-6.

Heimkynni trjónunefs eru í öllum heimshöfum á milli 63°N og 15°S. Í norðaustanverðu Atlantshafi nær útbreiðslan þó norður að 65°40'N. Sá fyrsti sem veiddist í norðanverðu Norðaustur-Atlantshafi fékkst djúpt undan Suðvesturlandi utan 200 sjómílna markanna (62°39'N, 33°45'V) árið 1973. í apríl 1988 veiddist einn í botnvörpu á 695- 715 m dýpi á grálúðuslóðinni vestur af Víkurál (65°40'N, 27°45'V). Árið 1989 veiddist annar, 1990 tveir, 1993 þrír og 1995 tveir og allir á svipuðum slóðum vestur af Víkurál. Lengd þessara fiska var 28-39 cm án trjónustangar. Í norðvestanverðu Atlantshafi hefur trjónunefur m.a. veiðst undan Nýja-Skotlandi og Suðvestur-Grænlandi (Davissundi).

Lífshættir: Lítið er vitað um lífshætti trjónunefs nema að hann mun vera miðsævis-, botn- og djúpfiskur. Þeir sem veiðst hafa á Íslandsmiðum fengust allir í botnvörpu á 695- 1100 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?