Þykkvalúra

Samheiti á íslensku:
sólkoli
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Microstomus kitt
Danska: rødtunge
Færeyska: tunga
Norska: bergflyndre, landtunge, lomre, oterflyndre, rødtunge
Sænska: bergskädda, bergtunge
Enska: lemon dab, lemon sole, smear dab
Þýska: Echte Rotzunge, Limande
Franska: limande-sole
Spænska: falsa limanda, mendo limón
Portúgalska: solha-limão
Rússneska: Камбала малоротая / Kámbala malorótaja, Европейская малоротая камбала / Jevropéjskaja malorótaja kámbala

Útlit

Þykkvalúra er allþykkvaxin af kola að vera og með mjög lítinn haus. Kjaftur er smár og endastæður og granir eru þykkar. Tennur eru lítið þroskaðar á dökku hliðinni en allstórar og þéttstæðar og mjög beittar á ljósu hliðinni. Augu eru lítil. Bakuggi byrjar á móts við mitt vinstra auga. Sporðblaðka er í meðallagi stór. Hreistur er smátt og slétt. Roðið er þykkt og gljáandi af slími og er þykkvalúran því mjög hál viðkomu. Rák er greinileg og bein en liggur þó í boga yfir eyruggum.

Þykkvalúra verður um 60 cm. Hér hefur hún mælst lengst 55 cm en oftast er hún 20-40 cm.

Litur er breytilegur á dökku hliðinni eins og á öðrum flatfiskum. Oft er þykkvalúran rauðgrá eða rauðbrún og með dökkum dílum eða blettum á hægri hlið en ljós á vinstri hlið.

Heimkynni

Þykkvalúra finnst í norðaustanverðu Atlantshafi frá Hvítahafi og Norður Noregi að austan og meðfram strönd Noregs inn í Skagerak og Kattegat og dönsku sundin. Hún er í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar og allt suður í norðanverðan Biskajaflóa. Þá er hún við Færeyjar og Ísland. Hennar hefur orðið vart við Grænland en finnst ekki við Norður-Ameríku.

Við Ísland er þykkvalúra allt í kringum landið. Hún er algeng víða við Suður- og Suðvesturland en er sjaldséð undan Norðaustur- og Austurlandi.

Lífshættir

Þykkvalúra er botn- og grunnfiskur sem lifir á sand- og malarbotni á 20-200 m dýpi.

Hrygning fer fram á 50-70 m dýpi og dýpra við suður- og suðvesturströndina. Hrygning hefst seint í maí og er lokið í ágúst. Egg eru sviflæg og klekjast út á 8 dögum við 8-10°C. Seiði eru 4,7-5,5 mm við klak og leita botns þegar þau eru 15-20 mm á lengd.

Vöxtur er mismunandi eftir fæðuskilyrðum. Fyrstu árin vaxa hængarnir hraðar en hrygnurnar. Kynþroska ná hængar 3-4 ára en hrygnur 4-6 ára og eftir það taka hrygnur fram úr hængum í vexti. Þær verða einnig eldri.

Fæða er allskonar smábotndýr, einkum burstaormar, slöngustjörnur, smákuðungar, skeljar, marflær og fleiri hryggleysingjar. Einnig fiskar eins og sandsíli og loðna.

Nytjar

Nytsemi er víða allmikil þó þykkvalúran hafi ekki verið hátt metin hjá Íslendingum áður fyrr. Mest hefur verið veitt af henni í Norðursjó.

Mestur varð þykkvalúruaflinn á Íslandsmiðum árin 1927-1938 eða á bilinu 2000-3000 tonn og nær einungis veiddur af útlendingum. Aflinn var síðan svipaður í byrjun sjöunda áratugarins og fór í tæp þrjú þúsund tonn árið 1963. Árin 2005-2009 var árlegur þykkvalúruafli Íslendinga um 2.600 tonn og er það mesti afli okkar til þessa. Meginveiðisvæði þykkvalúru eru á landgrunninu sunnan- og vestanlands en lítið veiðist fyrir norðan og austan.

Byggt á bókinni Íslenskir fiskar (Mál og menning 2013). Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?