Tannkrabbi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Cancer bellianus
Enska: toothed rock crab
Þýska: gezahnte Bogenkrabbe
Franska: tourteau denté
Spænska: buey dentudo

Útlit

Tannkrabbi líkist töskukrabba að lögun en bakskjöldur er hins vegar mjög ósléttur, flekkóttur, rauðbrúnn og ljósleitur, með djúpum rákum og alþakinn smærri ljósleitum hnúðum. Rönd skjaldar er einnig ljósleit og frambrún skjaldarins er greinilega mörkuð með tíu tenntum geirum hvorum megin og er nafn krabbans dregið af þeim. Gripklærnar eru mjög sterklegar, jafnstórar og svartar fremst. Þriðji liður gripklóa er enn fremur með tvær tennur að ofanverðu, ólíkt töskukrabba. Tannkrabbi er oft með ígulker áföst á skildi sínum.

Útbreiðsla

Tannkrabbi finnst við suðurströnd Íslands en er sjaldgæfur. Hann finnst við Bretlandseyjar, Spán, við Asóreyjar og Kanaríeyjar allt suður til Marokkó. Tannkrabbi er algengari sunnarlega á útbreiðslusvæði sínu.

Lífshættir

Tannkrabbi hefur veiðst á 40-700 m dýpi, er algengastur við 300-400 m. Útbreiðsla kynja er ólík, þar sem kvendýr eru algengari í grynnri sjó, 200-400 m, en karldýrin eru algengari á 400-600 m dýpi.

Nytjar

Nytjar við Ísland eru engar, en þar sem tannkrabbi er algengastur veiðist hann sem meðafli og er nýttur. Erlendis, sérstaklega við Asóreyjar, veiðist tannkrabbi í miklu magni sem meðafli við humarveiðar.

Heimildir/ ítarefni

Anton Galan og Hrafnkell Eiríksson. 2009. Tösku -, tann- og klettakrabbi. Náttúrufræðingurinn.

Svavarsson, J., & Dungal, P. (2008). Leyndardómar sjávarins við Ísland. Glóð.

  1. R. Pinho, J. M. Gonçalves, H. R. Martins. 2001. Biology and abundance of Cancer bellianus (Decapoda, Brachyura) around the Azores . ICES Journal of Marine Science 58 (4), bls. 896–903. https://doi.org/10.1006/jmsc.2001.1079
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?