Svarthveðnir

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Centrolophus niger
Danska: sort lodsfisk, sortfisk
Færeyska: svartfiskur
Norska: svartfisk
Sænska: svartfisk
Enska: Blackfish, black ruff
Þýska: Schwarzfisch
Franska: centrolophe noir, pompile noir
Spænska: romerillo
Portúgalska: liro-preto

Svarthveðnir er hávaxinn og þunnvaxinn fiskur á yngri árum en verður síðar straumlínulaga og rennilegur og líkist mjög ufsa í útliti. Haus er í meðallagi stór og snjáldur er ávalt. Kjaftur er frekar lítill, skoltar veikbyggðir og jafnlangir. Augu eru allstór. Bolur er í meðallagi langur og styttri en stirtlan. Spyrðustæði er langt og grannt. Bakuggi er langur, byrjar á móts við eða aftan við rætur eyrugga. Raufaruggi er um helmingi styttri en bakuggi. Aftari rætur þeirra eru andspænis hvor annarri. Sporður er stór og djúpsýldur. Eyruggar eru í meðallagi stórir og kviðuggar litlir og undir rótum eyrugga. Hreistur er smátt og rák er greinileg. Svarthveðnir getur náð 150 cm lengd. Sá stærsti sem veiðst hefur hér var 95 cm og veiddist við Knarrarósvita í mars 1981.

Litur: Svarthveðnir er svartur á baki og hliðum, silfraður á kviði.

Geislar: B: IV-V+37-41; R: III+20-24; hryggjarliðir: 25.

Heimkynni svarthveðnis eru í Miðjarðarhafi og Norður-Atlantshafi heimsálfa á milli. Einnig er hann í sunnanverðu Suður-Atlantshafi, Suður-Indlandshafi og Suður-Kyrrahafi. Í Norðaustur-Atlantshafi er hann undan Norðvestur-Afríku og við Asóreyjar, í Biskajaflóa, við Bretlandseyjar og flækingar eru í Norðursjó, við Noreg, Færeyjar og til Íslands. Í norðvestanverðu Atlantshafi hefur hann fundist sunnan Grænlands, við Labrador og við strönd Bandaríkjanna. Þá hefur hann fundist við Suður-Afríku, Chile, Ástralíu og Nýja-Sjáland.

Við Ísland fannst svarthveðnir fyrst í október árið 1948, djúpt undan Suðausturlandi (64°20’N, 11°13’V). Síðan hafa allmargir veiðst, allt frá 150 sjómílum austur af Dalatanga og Íslands-Færeyjahrygg vestur með Suðurlandi og allt vestur á Halamið. Haustið 2003 var óvenjumikið um svarthveðni undan Suðvestur-, Vestur- og Norðvesturlandi.

Lífshættir: Svarthveðnir er úthafs- og miðsævisfiskur sem flækist víða. Hann lifir allt frá yfirborðssjó og niður á 550 m dýpi og jafnvel dýpra.

Fæða er ýmsir smáfiskar og svif. Í maga hans hafa fundist leifar af marglyttum, kambhveljum, fiskum og fleiru. Geta má þess að í maga margra svarthveðna sem hér hafa veiðst hefur verið mikið af bandormum.

Egg um 1,2 mm í þvermál hafa fundist í Miðjarðarhafi, svo og 17 mm svifseiði.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?