Sundkrabbi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Polybius holsatus
Danska: glat svømmekrabbe
Enska: flying crab, swimming crab, common swimming crab
Þýska: Ruderkrabbe, gemeine Schwimmekrabbe
Franska: crabe nageur

Útlit

Sundkrabbi minnir á bogkrabba, ef undan eru skildir sundfætur og litbrigði. Aftasta fótaparið á frambolnum er ummyndað í blöðkulaga sundfætur og með þeim syndir krabbinn. Sundkrabbi er smávaxinn, skjöldur verður hátt í 4 cm langur. Hann er ljósbrúnn eða sandlitaður með grænum blæ. Sundblöðkur eru bláleitar og gjarnan eru hvítar doppur báðum megin á skildi. Á framanverðum skildi hvorum megin eru fimm tennur og milli augna eru þrír flatir hnúðar. Skjöldur er að mestu sléttur.

Útbreiðsla

Við Ísland hefur sundkrabbi einungis fundist við Suður- og Vesturland.

Sundkrabbi finnst í Norðursjó, Austur-Atlantshafi, og við strendur Norður-Evrópu. Hann er algengur í fjörum við Bretland og Írland.

Lífshættir

Lífshættir sundkrabba hafa lítið verið rannsakaðir hérlendis en fæða hans hefur verið rannsökuð í Bretlandi.

Sundkrabbi finnst á sand- og malarbotni neðarlega í fjörum og í fjörupollum. Hann finnst einnig dýpra, niður á 300 m dýpi en er algengastur á um 50-100 m dýpi. Hann étur önnur krabbadýr, lindýr og fiska en fæðusamsetning er mjög háð fæðuframboði í umhverfi hans. Sundkrabbi velur sér helst dýrafæði en grípur einnig til þörunga.

Sundkrabbi er mikilvæg fæða í grunnsjávarvistkerfum, sérstaklega fyrir fugla og fiska. Vegna smæðar og þess að þeir synda eru þeir aðgengilegri fæða en aðrir krabbar sem til dæmis halda sig milli steina. Við Ísland þekkist að sundkrabbi sé étinn af lúðu, þorski, ýsu, tindaskötu og ufsa. Sundkrabbi finnst í fæðu fiska sem veiddir eru út af Suður- og Vesturlandi á 0-250 m dýpi og finnst hann í mögum allan ársins hring.

Nytjar

Beinar nytjar eru engar.

Heimildir/ ítarefni

Jörundur Svavarsson & Pálmi Dungal. (2008). Leyndardómar sjávarins við Ísland. Glóð.

Sundkrabbi í fæðu botnfiska við Ísland: Ragnhildur Sara Bergsdóttir. (2025). Íslenskir krabbar í fæðu ránfiska (https://hdl.handle.net/1946/50291) [Bakkalár, Háskóli Íslands]. Skemman. https://skemman.is/handle/1946/50291

Fæðurannsókn sundkrabba og Liocarcinus puber í Bretlandi: Choy, S. C. (1986). Natural diet and feeding habits of the crabs Liocarcinus puber and L. holsatus (Decapoda, Brachyura, Portunidae). Marine Ecology – Progress Series 31, bls. 87-99.

Picton, B.E. & Morrow, C.C. (2024). Polybius holsatus. (Fabricius, 1798). [In] Encyclopedia of Marine Life of Britain and Ireland. Sótt 4. júlí 2025 af https://www2.habitas.org.uk/marbiop-ni/speciesaccounts.php?item=S26700

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?