sjá einnig skrápflúra (íslenska)

Stórkjafta

Samheiti á íslensku:
flúra, sjá einnig skrápflúra, þjalakoli, öfugkjafta
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lepidorhombus whiffiagonis
Danska: glashvarre
Færeyska: glaskvoysa
Norska: glassvar
Sænska: glasvar
Enska: megrim, sailfluke, whiff
Þýska: Flügelbutt, Scheefsnut
Franska: cardine franche, fausse limande, limandelle
Spænska: gallo del norte, lliseria
Portúgalska: areeiro
Rússneska: Мегрим / Megrím

Stórkjafta er þunnvaxinn og langvaxinn flatfiskur sem snýr vinstri hliðinni upp. Haus er allstór og kjaftur er mjög stór og þaðan er nafnið komið. Neðri skoltur nær langt fram fyrir efri skolt. Á enda neðri skolts er smá tota. Trjónan er lengri en þvermál augna. Tennur eru allar smáar. Augu eru stór og stutt bil er á milli þeirra. Hægra auga er aftar en það vinstra. Bak- og raufaruggi eru langir og ganga lítið eitt yfir á ljósu hliðina. Eyruggi vinstra megin, þ.e dökku hliðarinnar, er næstum tvöfalt lengri en hægri eyruggi. Kviðuggarætur eru langar. Sporðblaðka er ydd í endann. Hreistur er stórt á dökku hliðinni. Rák er greinileg og myndar boga yfir eyruggum. Sérkennilegt er hve ungur fiskur er gegnsær. Þegar honum er haldið upp í ljósið sjást m.a.a innyfli greinilega. Í mars 1992 veiddist 65 cm stórkjafta í Háfadjúpi en oftast er hún 40-50 cm á lengd.

Litur: Stórkjafta er rauðgrá eða gulmóbrún á dökku hliðinni en hvít á þeirri hægri.

Geislar: B: 85-96; R: 61-75; hryggjarliðir: 41.

Lífshættir: Stórkjafta er botnfiskur sem lifir á 40-400 m dýpi en er algengust á 100-200 m sand- og leirbotni. Hún veiðist stundum upp um sjó. Á veturna dregur hún sig út á meira dýpi en grynnkar á sér á vorin og sumrin þegar hlýna tekur.

Fæða er allskonar smáfiskar eins og spærlingur, stóri mjóni, kolmunni, loðna og fleira en einnig flatfiskar, þorsk- og ýsuseiði, smákrabbadýr, einkum rækjur og fleiri botndýr.

Hrygning fer fram í mars til júní hér við land. Egg eru sviflæg, um 1 mm í þvermál og klekjast út á um einni viku. Svifseiði finnast í júlí til ágúst. Þegar þau eru um 2 cm hverfa þau til botns og taka á sig mynd foreldra sinna.

Nytjar: Dálítið er veitt af stórkjöftu árlega sem aukaafla með öðrum fiskum. Helstu veiðiþjóðir eru Spánverjar, Frakkar og Skotar og helstu veiðisvæði eru í Biskajaflóa, við Portúgal, Írland og Skotland.

Árið 1965 komst aflinn á Íslandsmiðum í 721 tonn og veiddu Íslendingar 254 tonn af þeim afla. Mestur var afli Íslendinga 419 tonn árið 1996.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?