Stóri silfurfiskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Argyropelecus gigas
Danska: Stor sølvøkse
Sænska: större pärlemorfisk
Enska: Giant hatchetfish, greater silver hatchetfish
Franska: grande hache d'argent
Spænska: Pez hacha, pez hacha gigante

Stóri sílfurfiskur er lítill fiskur, hávaxinn og þunnvaxinn. Hann er með stóran haus, kjaft sem vísar næstum beint upp og smáar tennur. Augu eru mjög stór og vísa upp. Framan við bakugga er alllangur og nokkuð hár beinkambur sem fer hækkandi aftur eftir. Í honum eru sex geislar. Bakuggi er í meðallagi stór, aftan hans er langur og lágur veiðiuggi. Raufaruggi er lengri og lægri en bakuggi og eru fremri rætur hans aftar en afturrætur bakugga eða andspænis þeim. Eyruggar eru nokkuð langir en kviðuggar litlir og stubbslegir. Hreistur tegundarinnar er laust og sundmagi vel þroskaður.

Ljósfæri sem eru ofan til á kviði og á stirtlu eru í samfelldri og allbeinni röð. Stóri silfurfiskur verður allt að 12 cm á lengd að sporði.

Litur: Stóri silfurfiskur er ljós á lit með perlugljáandi ljósfæri á hliðum.

Geislar: B: (6+)9-10; R:12-13; hryggjarliðir: (36)37-38(39).

Lífshættir: Stóri silfurfiskur er miðsævisfiskur sem veiðst hefur á 300-850 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?