Stóri mjóni

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lumpenus lampretaeformis
Danska: spidshalet langebarn
Færeyska: longubródir
Norska: langhalet langebarn, spisshalet langebarn
Enska: snake blenny
Þýska: Spitzschwänziger Bandfisch
Franska: lompénie-serpent
Rússneska: Лумен(ус) миноговидный / Lumén(us) minogovídnyj

Stóri mjóni er langvaxinn og grannvaxinn fiskur, sívalur á bol en þynnist aftur eftir. Haus er í meðallagi stór, kúptur, en snjáldur er stutt og kjaftur lítill og jafnskolta eða neðri skoltur örlítið innstæður. Smáar, beittar tennur eru á báðum skoltum. Augu eru stór. Stirtla er mjó og löng. Bakuggi er langur, nær frá haus og næstum aftur að sporðblöðku. Geislar hans eru allir broddgeislar. Þeir fremstu eru örlítið lægri en þeir aftari. Raufaruggi nær frá rauf að sporði. Sporðblaðka er stór og ydd í endann. Eyruggar eru allstórir en kviðuggar mjög litlir og eru framan við eyrugga. Hreistur er smátt og rák ógreinileg en þó sjáanleg. Stóri mjóni er oftast 20-40 cm en getur orðið 52 cm.

Litur er breytilegur, ljósmórauður eða grænleitur með dökkbrúnum blettum sem mynda stundum átta til níu óreglulegar rákir á hliðum. Ljósgulur að neðan.

Geislar: B:LXVIII-LXXXIV; R: I+49-62; hryggjarliðir: 80-85.

Lífshættir: Stóri mjóni er botnfiskur sem lifir mest á 20-200 m dýpi en hefur veiðst niður á um 300 m dýpi suður af Selvogsbankatá. Heldur sig einkum á leirbotni en finnst þó einnig á hörðum botni.

Fæða er burstaormar og fleiri smádýr. Í Norðursjó étur hann t.d. þanglýs, krabbaflær, litla krossfiska og mjög lítil skeldýr. Sjálfur verður hann ýmsum fiskum að bráð, t.d. þorski og lúðu.

Hrygning fer sennilega fram um hávetur og eru eggin botnlæg en seiðin sviflæg. Lirfur hafa fundist hér allt í kringum land frá því á vorin og fram á sumar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?