Sprettfiskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Pholis gunnellus
Danska: tangspræl
Færeyska: tarabrosma
Norska: tangsprell, teistefisk
Enska: butterfish, gunnel, rock eel
Þýska: Butterfisch
Franska: gonelle, papillon de mer
Rússneska: Маслюк (обыкновенный; атлантический) / Masljúk (obyknovénnyj; atlantítsjeskij)

Sprettfiskur er lítill, langvaxinn og mjög þunnvaxinn fiskur. Mesta hæð er um miðjan bol og þaðan mjókkar fiskurinn aftur til sporðsins. Haus er smár og þunnur, trjónan er stutt. Kjaftur er smár og skástæður, nær aftur á móts við augu. Neðri skoltur er aðeins framteygður. Tennur eru smáar og sljóar. Þær eru í einfaldri röð í efri skolti en í neðri skolti eru margar raðir og eru fremstu tennurnar stærstar. Tennur á plógbeini og gómbeinum. Augu eru lítil. Bakuggi er langur og lágur, nær frá aftari jaðri tálknaloks og aftur að eða á sporðblöðku. Geislar í bakugga eru broddgeislar. Raufaruggi nær frá rauf á miðjum fiski og að sporðblöðku eins og bakuggi og greina þeir sig frá henni með smá skarði eða rauf. Fremstu geislar í raufarugga eru broddgeislar en hinir liðgeislar. Sporður er lítill og bogadreginn, kviðuggar eru mjög litlir og eru undir rótum eyrugga. Þeir eru aðeins einn gaddur og einn linur geisli. Hreistur er smátt og þakið þykku slímlagi. Rák sést ekki. Sprettfiskur er oftast 15-20 cm en getur orðið 30 cm langur.

Litur er breytilegur, oft gulleitur til brúnleitur með rauðleitum blettum, kviður er fölleitur til gulhvítur. Ofan og aftan við augu er dökk lína og á mótum bakugga og skrokks eru 10-14 jafndreiðir, kringlóttir, svartir blettir með ljósum jaðri. Raufaruggi og sporðblaðka eru gulleit.

Geislar: B: LXX-LXXXIV; R: II+ 37-44: hryggjarliðir: 84-86.

Lífshættir: Sprettfiskur er botnfiskur á grunnsævi og í strandsjó frá fjöruborði og niður á um 20 m dýpi og dýpra en sjaldan dýpra en 30 m. Hann hefur þó veiðst einu sinni á um 180 m dýpi á Georgsbanka við Nýfundaland. Hann heldur sig mest á grýttum botni innan um þang og grjót þar sem hann getur falið sig. Hann sést oft í fjörupollum ef vel er leitað. Sprettfiskur leitar dýpra á veturna.

Fæða er alls konar smádýr sem hann ræður auðveldlega við, eins og fiskseiði burstar, lindýr, botnkrabbaflær og fleira.

Hrygning hér við land fer að mestu fram í janúar og febrúar við Suður- og Vesturland. Egg eru botnlæg og fjöldi þeirra 1500-2500 og þeim er hrygnt í lirla kekki sem hængarnir og hrygnurnar gæta þar til þau klekjast snemma vors. Seiðin eru um 9 mm við klak og sviflæg fyrst í stað en leita botns að hausti þegar þau eru 3-4 cm löng. Sprettfiskurinn getur orðið kynþroska þegar á fyrsta ári en flestir eru orðnir kynþroska þriggja ára. Hann getur orðið a.m.k. 12 ára gamall.

Nytjar: Nytsemi er engin nema sem fæða annarra fiska, svo sem þorsk. Einnig étur teista mikið af sprettfisk enda hefur hann verið kallaður teistufiskur eða teistusíli.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?