Sníkir

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Echiodon drummondii
Danska: snyltefisk
Færeyska: gestfiskur
Norska: snyltefisk
Sænska: tandfierasfer
Enska: Pearlfish
Þýska: Eingeweidefische
Franska: aurin, fierasfer

Sníkir er lítill fiskur, langvaxinn, grannvaxinn og þunnvaxinn. Haus er í meðallagi stór. Kjaftur er stór og ná skoltar vel aftur fyrir augu. Fremst í hvorum skolti eru tvær vígtennur en annars eru tennur smáar. Bolur er mjög stuttur og rauf mjög framarlega eða undir eyruggum. Bak- og raufaruggi eru langir og er raufaruggi aðeins lengri, nær fram á móts við miðja eyrugga. Þeir renna síðan saman við stirtluenda og ekki vottar fyrir sporðblöðku. Uggageislar bak- og raufarugga eru þéttstæðir og erfitt að greina þá í sundur. Eyruggar eru af meðalstærð og kviðugga vantar. Stærð er allt að 30 cm.

Litur er bleiksilfraður með silfurslikju á tálknaloki og augum en dökka bletti á haus og meðfram jöðrum bak- og raufarugga.

Heimkynni sníkis eru í Norðaustur-Atlantshafi frá Norðvestur-Afríku til Ermarsunds og Bretlandseyja, í Norðursjó, við vestanverða Danmörku, Suðvestur-Noreg og hér við Ísland hefur hann einnig fundist. Önnur tegund sömu ættkvíslar (Ecbiodon dentatus) er í Miðjarðarhafi.

Í lok ágúst árið 1956 veiddi skoskt rannsóknaskip sníki á Öræfagrunni. Í október árið 1993 veiddist annar á 146-183 m dýpi á Öræfagrunni. Hann var 25 cm langur. Í október 1998 veiddust þrír, hver þeirra 29 cm, á 182-219 m dýpi á Papagrunni. Einn þeirra var aldursgreindur og reyndist vera 8 ára gamall. Þá veiddust tveir, 17 og 31 cm, í Lónsdjúpi í apríl 2005. Sníkir hefur síðan veiðst öðru hvoru undan Suðausturlandi.

Lífshættir: Sníkir er botnfiskur sem lifir á 120-300 m dýpi. Talið er að sníkir, einkum ungviðið, noti sæbjúgu sem dvalarstað á daginn en yfirgefi þau og leiti sér fæðu á nóttunni.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?