Snarphali

Samheiti á íslensku:
snarpi langhali
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Macrourus berglax
Danska: nordlig skolæst
Færeyska: risna langasporl
Norska: havmus, isgalt, løkfisk
Sænska: Långstjärt
Enska: onion eye, onion eye grenadier, rat-tail, roughhead grenadier, rough-headed grenadier
Þýska: Rauhköpfiger Grenadierfisch
Franska: grenadier berglax, grenadier gris
Rússneska: Северный длиннохвост / Sévernyj dlinnokhvóst, Северный макрурус / Sévernyj makrúrus, Макрурус северный / Makrúrus sévernyj

Snarphali er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur að aftan með stóran haus og stór augu. Snarphali líkist slétthala talsvert í útliti en er með lengra trýni og hreistur er með sléttum kili sem endar í hvössum broddi og vísar broddurinn aftur. Þá nær aftari bakuggi lengra fram en raufaruggi. Einnig eru rætur eyrugga framan við fremri rætur fremri bakugga.

Einn 110 cm snarphali veiddist í apríl 1995 á grálúðuslóð vestan Víkuráls og er hann sá stærsti sem þekkist.

Litur er dökkgrár á baki og uggum en silfurgrár á hliðum og kviði.

Geislan Bl: 11-12; B2: 105-112; R: 108- 113; hryggjarliðir: 96.

Heimkynni snarphala eru í Norður-Atlantshafi frá Svalbarða í Barentshafi til Norður-Noregs og þaðan suður á móts við Björgvin. Þá er hann vestan Írlands, við Færeyjar og Ísland og í hafinu þar á milli, svo og við Austur- Grænland. Í Norðvestur-Atlantshafi er hann við Vestur-Grænland og til Labrador og Nýfundnalands og við norðaustanverð Bandaríkin.

Á Íslandsmiðum verður snarphala vart allt í kringum landið en algengastur er hann djúpt undan Vestfjörðum og Vesturlandi, á Reykjaneshrygg og víðar suðvestanlands. Einnig er hann algengur á Færeyjahrygg.

Lífshættir: Snarphali er botn- og djúpfiskur sem lifir á 295- 1260 m dýpi. Algengastur er hann á 600-900 m dýpi hér við land og í 4- 5°C heitum sjó.

Fæða er einkum fiskar eins og skjár, loðna, marsnákur, kolbíldur, laxsíld, rauða sævesla, hveljusogfiskur, mjóri og fleiri, en einnig ljósáta og fleiri smákrabbadýr, auk þess smokkfiskur og hvelja.

Aðalhrygningarsvæði hér við land er á Dohrnbanka- og Víkurálssvæðinu þar sem hrygning á sér stað á 800-1000 m dýpi í 3-5°heitum sjó. Hrygningartími er sennilega breytilegur eftir svæðum. Hann hrygnir e.t.v. allt árið um kring með hámarki í febrúar til maí. Egg eru sviflæg.

Nytjar: Dálítið hefur verið veitt af snarphala, m.a. undan Suðvesturlandi og víðar. Áður fyrr voru Sovétmenn og Austur-Þjóðverjar duglegastir við þær veiðar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?