Smábroddabakur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Notacanthus bonaparte
Danska: Bonapartes pigål
Færeyska: småtindabak
Norska: Bonapartes piggål
Enska: shortfin spiny eel
Spænska: anguila de Bonaparte
Rússneska: Средиземноморский спиношип / Sredizemnomórskij spinoshíp

Smábroddabakur er állaga, frekar grannvaxinn eða sívalur. Hausinn er frekar smár og kjaftur undirstæður. Augu eru nokkuð stór. Bakuggi samanstendur af 5- 9 stökum broddum á miðju baki. Raufarugginn er langur og rennur saman við sporðblöðku sem lítt eða ekki vottar fyrir. Eyruggar eru smáir og kviðuggar örlítið stærri. Hreistrið er mjög smátt og vottar fyrir rák. Smábroddabakurinn getur náð 40 cm lengd.

Litur er grár til bleikur en jaðar tálknaloks og innanverður kjaftur eru svört.

Geislar: B: V-IX; R: XI-XIV+100-140.

Heimkynni: Smábroddabakur hefur m.a. veiðst í Miðjarðarhafi og í norðaustanverðu Atlantshafi við Madeira, vestan Írlands og Færeyja og á Dohrnbanka á milli Íslands og Grænlands. Óljós heimild er um að hann hafi einnig veiðst djúpt suður af Selvogsbanka.

Lífshættir: Hann er djúp- og botnfiskur sem veiðst hefur á 700-2000 m dýpi. Fæða smábroddabaksins er einkum alls konar botnlægir hryggleysingjar eins og mosadýr, klasadýr, svampar, sæbjúgu og slöngustjörnur.

Í Miðjarðarhafi hrygnir smábroddabakurinn í júní og júlí, en ekkert er um hrygningu hans vitað hér á norðurslóð.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?