Slöngustjörnur

Ophiopholis aculeata Slöngustjörnur
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Ophiuroidea
Danska: slangestjerner
Norska: slangestjerne
Enska: brittlestars
Þýska: Schlangensterne
Franska: ophiures, ophiurides
Rússneska: Офиуры / Ofiúry, Змеехвостки / Zmejekhvóstki

Slöngustjörnur eru skrápdýr og því skyldar krossfiskum og sæbjúgum. Allmargar tegundir af slöngustjörnum lifa í sjónum við Ísland. Lögun þeirra allra er mjög svipuð. Þær eru flestar um 5 til 15 cm í þvermál. Í miðju dýrsins er hringlaga diskur. Út frá miðdiskinum ganga fimm sveigjanlegir armar sem eru liðskiptir og oftast þaktir þyrnum. Armarnir eru stökkir og brotna auðveldlega af dýrinu. Undir diskinum, fyrir miðju, er stjörnulaga munnur.

Slöngustjörnur lifa neðst í fjörum og finnast þar helst undir steinum. Algengastar eru slöngustjörnur þó á grunnsævi neðan fjörunnar þar sem þær lifa bæði á hörðum og mjúkum botni. Þær sem lifa á hörðum botni halda sig flestar niðri á milli steina eða í klettasprungum og teygja arma sína úr úr fylgsninu til fæðuöflunar. Margar þeirra tegunda sem lifa á mjúkum botni grafa sig ofan í leirinn en armarnir ná upp úr yfirborði leirsins og sjá um fæðuöflunina.

Fæða slöngustjarna eru svifdýr og ýmis smádýr á botni sem þær taka með örmunum en á þeim eru slímugir sogfætur sem dýrið notar til að grípa með fæðu. Það færir fæðuna síðan að munni með því að sveigja armana að munninum. Oft má sjá slöngustjörnur í hópum ofan á steinum þar sem hæfilegur straumur er. Þar teygja þær tvo til þrjá arma út í strauminn til að grípa svifdýr sem rekur hjá en halda sér föstum við steininn með hinum örmunum.

Þegar slöngustjörnurnar færa sig úr stað draga þær sig áfram á örmunum. Sumar geta farið mjög hratt yfir.

Á myndinni má sjá slöngustjörnuna Ophiopholis aculeata.

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?