Slímáll

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Myxine jespersenae
Danska: Jespersens slimål
Norska: kvitål, pirål, sleipmakk, slimål, snagål
Enska: Jespersen´s hagfish
Rússneska: Европейская миксина / Jevropéjskaja miksína, Атлантическая миксина / Atlantítsjeskaja miksína

Slímáll er langur og mjóvaxinn eins og áll. Hann vantar skolta, samstæða ugga og hreistur og stoðgrind er brjóskkennd. Húðfaldur liggur frá afturhluta baks, fyrir afturenda dýrsins og fram eftir neðri hliðinni. Kjaftur er mjó skora, við hann eru tveir þræðir og granir eru engar. Á trjónuenda er ein nös og fjórir þræðir eru í kring um hana. Augu sjást ekki hjá fullorðnum slímálum því að húð er vaxin yfir þau. Eitt kviðlægt tálknaop er hvorum megin, rétt framan við endann á húðfaldinum. Eftir endilöngum kviði er röð af slímsekkjum. Þess vegna er slímállinn svo slímugur og þar af fær hann nafn sitt. Fjöldi slímopa hvorum megin er 107-121 þar af eru 28-37 op framan við tálknaop, 65-74 á milli tálknaops og raufar og 11-15 eru aftan raufar. Hann getur náð a.m.k. 53 cm lengd.

Litur: Oft gráleitur á bol eða rauðgrár en haus er Ijós og jafnvel hvítur og Ijós lína teygist mislangt aftur eftir kvið.

Heimkynni: Slímálar af þessari tegund hafa fundist undan Vestur- og Austur-Grænlandi (í Davissundi og Grænlandssundi) og á djúpslóð sunnan og vestan Íslands. Tveir slímálar sem veiddust á djúpslóð vestan Íslands, annar í þýskum Ieiðangri árið 1973 og hinn í íslenskum leiðangri árið 1977, voru upphaflega taldar vera M. gíutinosa. Síðar voru þeir greindir sem M. ios en hafa að líkindum verið M. jespersenae. í maí 1989 veiddist sá þriðji á 915-988 m dýpi vestan Víkuráls. Á árunum 1991-1997 veiddust um 40 slímálar til viðbótar, þar af 28 árið 1993. Langflestir veiddust á grálúðuslóðinni vestan Víkuráls. Árið 1997 veiddist einn utan 200 sjómílna markanna djúpt suðvestur af Reykjanesi. Síðan hafa slímálar veiðst alltaf öðru hvoru, aðallega á grálúðuslóð vestan Víkuráls, en í nóvember 2003 veiddust fjórir á 1135 m dýpi djúpt suður af Surtsey (62°44'N, 20°47'V). Sumir þessara slímála voru hrygnur með eggjum.

Lífshættir: Slímállinn er sjávardýr sem veiðst hefur á um 750-1600 m dýpi (hér á 800-1300 m).

Hann heldur sig á leirbotni. Um fæðu vísast til lýsingar ættar. Lítið er vitað um hrygningu slímáls. Egg eru fá en stór, um 2-3 cm á lengd.

Slímálstegundin M. glutinosa sem ofangreind tegund var í upphafi talin tilheyra lifir við strendur Evrópu frá Múrmansk og Norður-Noregi suður í Kattegat og að vesturströnd Írlands, austurströnd Skotlands og Englands og meðfram Frakklandsströnd til Spánar og Portúgals um Njörvasund allt inn i vestanvert Miðjarðarhaf. Einnig við Færeyjar, Austur- og Vestur-Grænland og Norður-Ameriku frá Labrador og Nýfundnalandi suður til New York.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?