Slétthyrna

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Chaenophryne longiceps
Danska: Glathovedet mareangler
Enska: Can-opener smoothdream

Útlit

Slétthyrna er lítill og hausstór fiskur og er haus bogadreginn að ofan. Enginn gaddur er á kambi. Kjaftur er stór og láréttur og nær aftur fyrir augu. Á skoltum eru allsterklegar tennur og plógbein er tennt beggja vegna. „Veiðistöng" á trjónu er frekar stutt. Stærsta slétthyrnan við Ísland mældist 24 cm en undan Hvarfi við Grænland veiddist ein 27 cm í júní 2003.

Litur slétthyrnu er svartur.

Geislar: B: 6-8,- R: 4-6,- E: 16-22, S: 9, hryggjarliðir: 21.

Heimkynni

Heimkynni slétthyrnu eru í Atlantshafi, Indlandshafi og Kyrrahafi. Í norðaustanverðu Atlantshafi hefur hún m.a. veiðst undan Gíbraltar og Írlandi og á Íslandsmiðum. Einnig við suðvestanvert Grænland og undan Nýfundnalandi.

Hér veiddist slétthyrna fyrst í leiðangri Vestur-Þjóðverja á rannsóknaskipinu Walther Herwig djúpt vestur af landinu árið 1973. Þá veiddist önnur í október árið 1985 á rækjumiðunum við miðlínu milli Íslands og Grænlands. Síðan hafa margar slétthyrnur veiðst á grálúðuslóðinni vestur af Víkurál og djúpt suð vestur af Reykjanesi en einnig út af Berufjarðarál við Suðausturland og ein út af Húnaflóa.

Lífshættir

Lítið er vitað um lífshætti slétthyrnu. Hún er miðsævis-, botn- og djúpfiskur og hér á Íslandsmiðum hefur hún veiðst á 330- 1335 m dýpi og ýmist í flot- eða botnvörpu. Í maga slétthyrnu sem veiddist hér árið 1985 fundust tvær loðnur.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?