Sláni

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Anotopterus pharao
Danska: Dolktandfisk
Enska: Daggertooth
Franska: Pharaon
Rússneska: Кинжалозуб / Kinzhalozúb

Sláni er langvaxinn og grannvaxinn fiskur og þunnvaxinn að framan.

Hausinn er stór og einnig kjaftur og nær neðri skoltur fram fyrir þann efri. Á enda neðri skolts er brjósklaga tota sem teygist fram. Skoltar og gómbein eru tennt en plógbein og tunga eru tannlaus. Augu eru mjög stór. Bakugga vantar en andspænis raufarugga aftarlega á stirtlu er stór veiðiuggi. Sporður er sýldur. Eyruggar eru frekar litlir og kviðuggar mjög litlir og vel aftan við miðjan fisk. Hreistur vantar nema á rák. Sláni hefur engan sundmaga. Hann getur orðið rúmir 90 cm í Norður-Atlantshafi en 102 cm hængur mældur að sporði veiddist í apríl 1962 í Kyrrahafi undan Norður-Kaliforníu. Hér veiddist 94 cm sláni í júní árið 1994 á grálúðuslóð vestan Víkuráls.

Litur er silfraður á fullorðnum fiskum en ungir fiskar eru svartleitir.

Geislar: R: 12-16,- hryggjarliðir: 76-83.

Heimkynni slána eru í Atlants- og Kyrrahafi. Í norðaustanverðu Atlantshafi hefur hann m.a. fundist undan ströndum Portúgals og Norðvestur-Afríku, í Biskajaflóa og á Íslandsmiðum. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann við Vestur-Grænland og undan ströndum Bandaríkjanna. Í Suður-Atlantshafi er hann undan Namibíu og við Suðurskautslandið. Í Suður-Kyrrahafi við Suðurskautslandið og í Norður-Kyrrahafi við Japan, Kamtsjatka, undan Kanada og Kaliforníu.

Vorið 1957 og sumarið 1958 fundust hausar af slánum á dekki tveggja íslenskra togara sem voru að veiðum við Vestur-Grænland. Talið var að hausar þessir hefðu komið úr þorskmögum. Það var ekki fyrr en í maí árið 1985 sem sláni veiddist á Íslandsmiðum en þá fékkst einn 64 cm langur á Þórsbanka suðaustur af landinu. Síðan hafa allmargir veiðst á Íslandsmiðum og virðist hann stundum vera sæmilega algengur sums staðar á djúpmiðum suðvestur af landinu. Einnig er stundum mikið um hann Í Grænlandshafi utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar.

Lífshættir: Sláni er úthafs-, miðsjávar- og uppsjávarfiskur. Hann hefur veiðst við yfirborð - m.a. í leiðöngrum á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni - en annars er hann mest á meira en 500 m dýpi og hefur veiðst niður á 2000 m.

Fæða slána er einkum fiskar, m.a. geirsíli og loðna en leifar ýmissa fisktegunda hafa fundist í maga hans og einnig smokkfiskur. Sjálfur verður hann öðrum fiskum að bráð, t.d. stóra földungi, lúðu, túnfiski o.fl. Þeir slánar sem fundust við Suðurskautslandið komu úr mögum stórhvala.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?