Skriðáll

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Derichthys serpentinus
Enska: Narrownecked oceanic eel

Skriðáll er hreisturlaus og bollangur og er bolur mjóstur milli hauss og eyrugga. Gotrauf er rétt aftan við miðjan fisk. Augu eru vel þroskuð. Nasir sem holur, eilítið hliðstæðar og skipta trjónu í þrjá jafna hluta. Kjaftur nær næstum að afturbrún augna. Tennur eru smáar og keilulaga og mynda þrjár til fimm óreglulegar raðir í báðum skoltum og minnka eftir því sem aftar dregur. Tennur á miðskoltsbeini mynda þverstæðan hrygg sem er beint framhald tanna á efraskoltsbeini. Á plógbeini er skeifulaga tannaröð. Tálknaop eru lítil, kviðlæg en vel aðskilin frá hvort öðru. Bak- og raufaruggar renna saman við sporðugga. Fremri rætur bakugga eru langt aftan við eyrugga. Á aftasta þriðjungi stirtlu er bakugginn áberandi lægri en fremri hlutinn. Skriðáll getur orðið allt að 40 cm Iangur.

Litur er ólífubrúnn eða gráleitur, uggar nær gegnsæir.

Heimkynni skriðáls er í öllum heitum og heittempruðum heimshöfum. Hann hefur fundist beggja vegna Norður-Atlantshafsins. Í júní 2007 veiddist 27 cm langur fiskur í flotvörpu á 350—950 m dýpi við Reykjaneshrygg (63°03'N, 26°02'V) og er það fyrsti fiskurinn sem veiðist innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Árið 2003 veiddist 18 cm langur skriðáll á 700-1000 m dýpi góðan spöl utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar suðvestur af landinu (59°42'N, 26° 13'V) og annar árið 2009 á 700-850 m dýpi í Grænlandshafi (62°30'N, 34°12'V). Hann var 31 cm langur. Þetta munu vera nyrstu fundarstaðír þessarar tegundar til þessa.

Lífshættir: Mið- og djúpsjávarfiskur sem hefur veiðst allt niður á 2000 m dýpi.

Fæða er einkum smávaxnir fiskar og krabbadýr.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?