Skollakoppur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Strongylocentrotus droebachiensis
Norska: drøbakskråkebolle
Enska: green sea urchin
Rússneska: Зeлёный морской ёж / Zeljónyj morskój jozh

Skollakoppurinn er hnöttótt ígulker. Fullvaxin dýr eru 6–7 cm í þvermál. Oftast er skollakoppurinn dökkur á lit, purpurarauður, grænleitur eða brúnleitur. Hann hefur um sig harða skel sem er alsett broddum sem eru um 1–1,5 cm á lengd. Hann getur hreyft broddana og notar þá sem eru á neðra borði til að ganga á.

Skel skollakopps er gerð úr litlum sexhyrndum plötum sem eru límdar saman á köntunum. Út um örsmá göt á plötunum eru raðir af sogfótum sem teygja sig út á milli broddanna. Hann notar sogfæturnar til þess að festa sig við botninn og einnig getur hann fært sig úr stað með þeim.

Í munni skollakopps, sem er neðan á dýrinu, er sterklegur tannakrans sem vegna lögunar sinnar hefur verið kallaður "ljósker Aristótelesar". Kransinn hefur fimm harðar tennur sem skollakoppurinn notar til að kroppa bita af fæðunni og einnig getur hann brotið litlar skeljar með þeim.

Skollakoppur lifir allt í kringum Ísland, frá fjöruborði niður á 1500 m dýpi en er algengastur á 5 til 30 m dýpi. Hann heldur sig aðallega á hörðum botni.

Aðalfæða skollakopps eru botnþörungar. Skollakoppurinn getur þó einnig nýtt sér dýr eins og hrúðurkarla og skeljar.

Hjá skollakoppi eru kynin aðskilin, þ.e. dýrin eru annaðhvort karl- eða kvendýr. Hrygning er á vorin. Kvendýrin losa eggin út í sjóinn og um leið sprauta nærstödd karldýr sæðisfrumum sem frjóvga eggin. Eftir frjóvgun verða eggin sviflæg og þroskast í lirfur. Lirfurnar eru í svifinu í tvo til fimm mánuði áður en þær setjast á botninn. Þær verða þá hnöttóttar og mynda brodda og líkjast fullorðnum skollakoppi.

Ígulker eins og skollakoppur eru notuð til matar víða um heim. Á árunum 1993 til 1996 var skollakoppur veiddur hér við land og voru hrognin úr þeim notuð til matar.

Venjulega lifir skollakoppur í jafnvægi innan um fæðu sína, botnþörunga. Það hefur hins vegar gerst víða að ígulkerum hefur fjölgað það mikið að beit þeirra raskar jafnvæginu og þörungarnir eru étnir upp að mestu. Á síðustu árum hefur beit skollakopps t.d. valdið eyðingu þaraskóga af víðáttumiklum svæðum í Eyjafirði. Þar sem áður var gróskumikill þaraskógur er nú auðn.

Meiri fróðleik um skollakopp má finna hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?