Skeggmeiti

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Rhadinesthes decimus
Danska: slank ulvekjæft
Enska: Slender snaggletooth

Skeggmeitill er langvaxinn, grannvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Hann er frekar hauslítill en kjaftstór og ná skoltar langt aftur fyrir augu. Á framanverðum neðri skolti er áberandi hökuþráður sem greinist í notkkrar kvíslar í endann. Tennur á skoltum eru frekar smáar og gisstæðar. Augu eru allstór. Bakuggi er frekar lítill og fyrir aftan miðju, um miðja vegu á milli kviðugga og raufarugga. Enginn veiðiuggi er aftan við bakugga. Raufaruggi er aðeins lengri en bakuggi og aðeins nær honum en sporði. Sporður er sýldur. Eyr- og kviðuggar eru mjög smáir. Rák er allgreinileg.

Ljósfæri eru aftan við augu (lítill blettur) og röð eftir endilangri kviðrönd frá eyruggum að sporði og önnur röð aðeins ofar frá haus að raufarugga. Skeggmeiti getur orðið um 40 cm á lengd.

Litur: Skeggmeiti er svartur á lit.

Geislar: B.: 11-13; R.; 18-21.

Lífshættir: Skeggmeiti er miðsævis- og djúpfiskur sem heldur sig oftast dýpra en 500 m á daginn. Smærri fiskar halda upp í efri lög sjávar á nóttunni.

Fæða er einkum miðsævisfiskar og svifkrabbadýr.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?