Sjafnarskata

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Malacoraja spinacidermis
Danska: Lodden rokke
Færeyska: Rísnaskøta
Enska: Soft skate
Franska: Raie peau hérissée
Spænska: Raya piel áspera

Sjafnarskata er með frekar oddmjóa trjónu og skífa er örlítið breiðari en hún er löng. Halinn er grannvaxinn og með mjóum hliðarföldum á aftari hluta. Fjarlægðin frá miðri rauf að halaenda er svipuð eða aðeins meiri en fjarlægðin frá trjónubroddi að rauf. Efra borð sjafnarskötu er hrjúft og með örsmáum örðum nema meðfram aftari jaðri skífunnar. Kviðuggar eru sléttir og einnig neðri hluti skífu. Hali er þakinn örðum nema bláendinn. Innstreymisop eru rétt aftan við augu. Tennur eru í 54- 60 röðum í efri skolti en 54 röðum í neðri skolti. Bakuggar eru tveir og jafnstórir og samvaxnir við rætur. Sporðblaðka er lítil. Sjafnarskata getur orðið 70 cm á lengd.

Litur sjafnarskötu er grábrúnn að ofan, ungir fiskar eru oft ljósari en þeir eldri. Neðri hlið ungra fiska er hvít og hali grár. Með vaxandi aldri verða skífa og hali dekkri.

Heimkynni: Sjafnarskata fannst fyrst undan strönd Suður-Afríku. Hennar hefur einnig orðið vart undan Norðvestur-Afríku og við Namibíu. Ein veiddist á 685-710 m dýpi í Rósagarðinum í maíbyrjun árið 1965. Í júní 1992 veiddist 37 cm hrygna á 900-1060 m dýpi djúpt vestur af Bjargtöngum. Þá mun hennar hafa orðið vart við Austur- og Vestur- Grænland og ein veiðst norðvestan Írlands.

Lífshættir: Lítið er vitað um lífshætti sjafnarskötu og hingað til hafa einkum fundist ungir fiskar. Þeir hafa veiðst á 450-1568 m dýpi.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?