Silfurþvari

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Halargyreus johnsonii
Færeyska: silvurprónur
Norska: snabelmoride
Enska: dainty mora
Franska: more délicat

Útlit

Silfurþvari er langvaxinn og frekar þunnvaxinn fiskur, hausstór og með stór augu. Bakuggar eru tveir og aðskildir. Fremsti geisli fremri bakugga teygist aftur í örlítinn þráð. Aftari bakuggi er langur, nær aftur að spyrðustæði. Raufaruggi byrjar um miðjan fisk og nær aftur undir spyrðustæði en ekki eins langt og aftari bakuggi. Raufaruggi slitnar næstum í sundur um miðju og því sýnist hann oft vera tveir uggar. Sporðblaðka er lítil. Eyruggar ná aftur fyrir fremri rætur aftari bakugga. Kviðuggar eru alllangir með fimm eða sex geislum. Rák er allgreinileg.

Silfurþvari getur náð 50-60 cm lengd.

Litur er silfraður.

Heimkynni

Í ágúst árið 1902 veiddi norska rannsóknaskipið Michael Sars þrjá silfurþvara á 1100-1300 m dýpi um það bil 278 sjómílur norðvestur af Suðureyjum. Síðan hefur hans orðið vart víða í heimshöfunum. Í norðaustanverðu Atlantshafi er hann allt frá Íslandsmiðum til Færeyja og vestur fyrir Bretlandseyjar að suðvestanverðu Írlandi. Einnig er hann við Asóreyjar, Madeira og Vestur-Afríku. Þá hefur silfurþvari veiðst undan Suður-Grænlandi. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann við Nýfundnaland og Bandaríkin. Þá er hann í suðvestanverðu Atlantshafi við Argentínu, í suðaustanverðu Kyrrahafi undan Chile, í suðvestanverðu Kyrrahafi við Nýja-Sjáland og í norðvestanverðu Kyrrahafi við Japan.

Á Íslandsmiðum veiddust sex silfurþvarar, 17-28 cm langir, á 760-810 m dýpi í rannsóknarleiðangri Vestur-Þjóðverja á rannsóknaskipinu Anton Dohrn djúpt suðvestur af Reykjanesi (63°45'N, 26°40'V) í marsmánuði árið 1963. Síðan þá hafa allmargir veiðst á miklu dýpi undan Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi, m.a. í rannsóknarleiðöngrum. Einnig hefur hann fengist í vörpur togara á sömu slóðum.

Lífshættir

Silfurþvari er miðsjávar-, botn- og djúpfiskur sem heldur sig gjarnan yfir landgrunnshöllum á um 500-1400 m dýpi en hefur veiðst allt niður á 3000 m dýpi. Um hrygningu og fæðu er Iítið vitað. Þó hafa fundist sviflæg krabbadýr í maga eins silfurþvara.

Heimildir

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013). 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?