Sæangi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Normichthys operosus
Danska: grubet skulderlysfisk
Færeyska: sævarangi
Enska: multipore searsid

Sæangi er lítill, langvaxinn og þunnvaxinn fiskur með allstóran haus. Augun eru stór. Bak- og raufaruggi eru andspænis hvor öðrum - bakuggi nær þó aðeins framar. Hreistur er smátt.

Ljósfæri hefur sæanginn engin en á hinn bóginn eru 3-7 mismunandi stór op dreifð á mili hnakka og tálknaloka. Ekkert þessara opa líkist á neinn hátt ljósfærum annarra anga. Út um þau vellur einhvers konar ljósvökvi. Sæangi verður um 25 cm á lengd.

Litur er dökkbrúnn

Geislar: B. 18-20, R: 16-18.

Heimkynni sæanga eru í Norðaustur-Atlantshafi frá Íslandsmiðum suður til Biskajaflóa og Asóreyja og auk þess sunnar í hlýrri hlutum Atlantshafsins, meðal annars undan Senegal og Angóla í Afríku. Þá hefur hann fundist í Davissundi við Vestur-Grænland.

Hér fannst sæangi fyrst vestan Víkuráls (66°N og 22-27°V) í apríl 1952 þegar íslenskur togari veiddi einn. Í apríl 1995 veiddist annar sæangi, 24,5 cm langur, vestan Víkuráls og í mars 1999 veiddust fjórir til viðbótar, 11-15 cm langir, á 360-385 m dýpi út af svokölluðum Fláka (64°30’N, 12°03’V) undan Suðausturlandi. Sæangi veiðist einnig á djúpmiðum suðvestur og vestur af Reykjanesi og virðist ekki vera mjög sjaldséður þar miðsævis.

Lífshættir: Sæangi er úthafs-, miðsævis-, djúp- og botnfiskur sem veiðst hefur á 360-1000 m dýpi.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?