Randarangi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Barbantus curvifrons
Danska: Blegbugtet skulderlys fisk
Enska: Palebelly searsid

Randarangi er frekar langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Engar höggtennur eru á miðskolti en smá gaddar teygjast út og til hliðar framan við neðri skolt. Á efri og neðri skolti er einföld röð smárra jafnstórra tanna. Engin smá ljósfæri eru á kviði en eftir endilangri miðlínu kviðar er röð fölleitra hreisturblaða sem gætu gefið frá sér ljós. Engar holur eru aftan við herðablað (eins og á sæanga, Normichthys operosus). Bakugginn er rétt aftan við miðjan fisk og rétt andspænis honum miðjum byrjar raufaruggi. Kviðuggar eru um miðjan fisk. Rákarhreistur er ekki upphleypt. Randarangi verður um 13-14 cm á lengd.

Litur: Randarangi er dökkur á lit, nema rönd eftir endilöngum kviði sem er með blá- föllitaðri slikju.

Geislar: B: 15-21,- R: 14-17,- E: 20-21,- K: 7-8,- tálknbogatindar: 17-30.

Heimkynni: Randarangi hefur m.a. veiðst í Biskajaflóa, við Madeira og suður til Angóla í Afríku en einnig í Indlandshafi, Kaliforníuflóa og í vestanverðu Kyrrahafi hitabeltisins.

Í júlí árið 2001 veiddust tveir, 10 og 13 cm langir, randarangar á 510 m dýpi langt suðaustur af Hvarfi á Grænlandi (53°32'N,

39°29'V og 55°45'N, 38°05'V) og í júní og júlí aðrir tveir, annar á 500-800 m dýpi djúpt austur af Hvarfi (60°16'N, 39°00'V) en hinn á 320-330 m dýpi rétt utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar suðvestur af landinu (63°14'N, 32°46'V). Einn 13 cm langur fékkst síðan í flotvörpu á 500-800 m dýpi í júlí sama ár innan lögsögunnar djúpt suðvestur af Reykjanesi (63°14'N, 27°53'V). Þá veiddist einn á 625-685 m dýpi vestan Víkuráls (65°40'N; 27°32'V) í október árið 2001. Í júní árið 2003 veiddust tveir 10 cm langir á 500—950 m dýpi í Grænlandshafi utan íslenskrar lögsögu (61°40'N, 32° 1 l'V og 60°39'N, 32°10'V) og einn 12 cm á 450 m dýpi djúpt suður af Hvarfi á Grænlandi (57°58'N, 43°37'V). Þá veiddist einn 10 cm í október árið 2004 á 570-600 m dýpi djúpt suðvestur af Bjargtöngum (64°43'N, 27°23'V).

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?