Ránarstirnir

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Sigmops bathyphilus
Danska: stor laksesilding
Enska: spark anglermouth
Rússneska: Глубоководная гоностома / Glubokovódnaja gonostóma

Ránarstirnir er lítill fiskur, langvaxinn, þunnvaxinn og kjaftstór. Bakuggi er andspænis framanverðum raufarugga sem er meira en tvöfalt lengri en bakugginn. Aftan bakugga og yfir aftanverðum raufarugga er lítill veiðiuggi. Eyr- og kviðuggar eru litlir og sporðblaðka djúpsýld. Á endilöngum kvið, frá lífodda að sporði er röð ljósfæra. Einnig eru ljósfæri í röð á ofanverðum bol aftur á móts við rauf. Ránarstirnir getur orðið 20 cm á lengd að sporði.

Litur: Ránarstirnir er svartur á lit.

Geislar: B: 11-15; R: 22-26; hryggjarliðir: 37-40.

Heimkynni ránarstirnis eru m.a. í norðaustanverðu Atlantshafi allt norður til Íslandsmiða og Suðaustur-Grænlands svo og við Suðvestur-Grænland. Í júlí árið 2001 veiddust nokkrir í flotvörpu á 2000 m dýpi þar sem botndýpi var 2500 m í úthafinu suðvestur af Reykjanesi (56° 37´N, 30°48´V). Þeir voru 12-13 cm langir. Hann er ekki í Miðjarðarhafi en í Suður-Atlantshafi og í Kyrrahafi er hann að finna.

Lífshættir: Ránarstirnir er miðsævis- og úthafsfiskur, algengastur á 700-3000 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?