Pólskata

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Rajella fyllae
Danska: Fyllas rokke, rundrokke
Færeyska: klingruskøta
Norska: rundskate
Sænska: rundrocka
Enska: Round ray, Round skate
Þýska: Fyllarochen
Franska: raie ronde
Spænska: raya redonda
Rússneska: Шиповaтый скат, Листовидный скат / Shipovátyj{Listovídnyj} skat

Útlit og lögun skífu pólskötu er mjög breytilegt eftir aldri. Á ungum skötum er skífan kringlótt og trjónan ávöl. Efra borð er þéttsett smáum örðum. Stórir gaddar eru á milli augna og á herðum. Samfelld röð 33-40 tiltölulega stórra gadda er eftir miðri skífu og hala að fremri bakugga. Á hala er röð af göddum beggja vegna við miðju. Hali er langur, allmiklu lengri en skífan.

Á fullorðnum skötum er jaðar skífunnar bylgjulaga (einkum áberandi á hængum), trjóna er mjórri og framteygðari og miklu færri örður eru á efra borði sem er að hluta bert. Gaddar á milli augna haldast en herðagöddum fjölgar með aldrinum. Miðgaddaröðin endar aftarlega á skífu. Gaddar á hala fara minnkandi eftir því sem aftar dregur. Á hala eru samsíða miðröðinni sterklegir gaddar í einni til tveimur röðum hvorum megin. Hliðarfaraldur er aðeins á aftasta þriðjungi halans. Pólskata getur orðið um 50-60 cm löng.

Litur: Pólskatan er brúngrá að ofan, stundum með kringlóttum dökkum blettum við skífujaðarinn. Fullorðnir hængar eru ljós- eða brúngráir að neðan. Á ungum pólskötum eru oft kringlóttir dökkbrúnir blettir ofan á skífu og hala.

Heimkynni pólskötu eru í norðanverðu Norður-Atlantshafi og nágrannahöfum. Hún er í Barentshafi norður til Svalbarða þar sem hún er sjaldgæf, meðfram strönd Noregs suður í Skagerak, vestan og norðan Bretlandseyja. Hún er við Ísland og Grænland bæði austan- og vestanvert og við strendur Norður-Ameríku suður til Nýja- Skotlands.

Hér veiðist pólskata allt frá djúpmiðum suðaustanlands, þar sem hún virðist vera einna algengust, vestur til djúpmiða suðvestan- og vestanlands.

Lífshættir: Pólskata hefur veiðst á 170-2050 m dýpi og í 1-7°C heitum sjó. Pétursskip hennar eru slétt og mjög smá, 40-44 mm á lengd (ánþráða) og 24-28 mm á breidd. Seiði eru um 7 cm við klak. Fæða er einkum botnlægir hryggleysingjar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?